ÍL-sjóður, gamli Íbúðalánasjóður, tapaði 23,5 milljörðum króna árið 2023, samanborið við 30,1 milljarðs króna tap árið 2022. Eigið fé ÍL-sjóðs var því neikvætt um 254 milljarða í árslok 2023. Ársreikningur sjóðsins var birtur í dag.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er sérstaklega vakin athygli á að upplausnarvirði eigna og skulda sjóðsins í árslok 2023 hafi verið metið neikvætt um 128 milljarða króna „og endurspeglar það skuldbindingu ríkissjóðs vegna einfaldrar ábyrgðar hans“, þ.e. sú fjárhæð sem ríkið telur sig þurfa að leggja til við uppgjör og slit sjóðsins. Til samanburðar var upplausnarvirðið metið á 81 milljarð í árslok 2022.

Í febrúar síðastliðnum lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um slit ógjaldfærra opinbera aðila, einkum með það að markmiði að heimila að setja ÍL-sjóð í slitameðferð sökum ógjaldfærni en lög um gjaldþrotaskipti verða opinberar stofnanir sem njóta ríkisábyrgðar ekki teknar til gjaldþrotaskipta „nema mælt sé á annan veg í lögum“.

Fjármálaráðuneytið hefur allt frá því að Bjarni kynnti ofangreinda skýrslu í október 2022 lýst því yfir að farsælast væri ef samkomulag næðist við kröfuhafa, sem eru að langstærum hluta lífeyrissjóðir, um uppgjör sem feli í sér að skuldabréfin verði gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs. Það gekk þó illa að koma á viðræðum við lífeyrissjóði sem hafa gagnrýnt áform ríkisins harðlega.

Það var því ekki fyrr en þann 23. febrúar síðastliðinn sem tilkynnt var um að viðræður væru hafnar við 18 lífeyrissjóði um uppgjör.

„Gangi viðræður ekki eftir er frumvarp um slit ógjaldfærra aðila mikilvæg skref í þá átt að hægt verði að skapa skilyrði til þess að slíta sjóðnum og stöðva taprekstur hans. Gert er ráð fyrir að frumvarpið eigi að geta orðið að lögum óháð því hvort viðræðurnar ganga eftir,“ segir í áritun umsjónaraðila í ársreikningi ÍL-sjóðs.

Eignir ÍL-sjóðs voru bókfærðar á 579 milljarða króna í árslok 2023 samanborið við 646 milljarða ári áður. Skuldir sjóðsins námu 833 milljörðum og eigið fé var neikvætt um 254 milljarða.