Tuttugu lífeyrissjóðir hafa birt harðorða umsögn um áform Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um lagasetningu sem heimila myndi slit og uppgjör á ÍL-sjóði, gamla Íbúðalánasjóði. Þeir segja áform Bjarna illa ígrunduð og geti kostað ríkið umtalsverðar fjárhæðir auk langdreginna málaferla bæði innanlands og erlendis.

„Fyrirhuguð löggjöf fæli í sér eignarnám, væri andstæð stjórnarskrá og til þess fallin að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu sem kynni að hafa í för með sér veruleg viðbótarfjárútlát af hálfu ríkissjóðs í formi dráttarvaxta og kostnaðar,“ segir í tilkynningu sem sjóðirnir sendu frá sér í dag.

Áformin, sem Bjarni kynnti fyrst hugmyndir um í október og eru nú til umsagnar í samráðsgátt, byggja að mati lífeyrissjóðanna á „afar hæpnum forsendum“ og ófullnægjandi greiningu á lagalegum og fjárhagslegum þáttum. Sjóðirnir segja fyrirhugaða lagasetningu fela í sér tilraun til að sniðganga fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins.

„Áform fjármála- og efnahagsráðherra eru til þess fallin að kasta rýrð á orðspor íslenska ríkisins og trúverðugleika á fjármálamarkaði. Þau gætu raskað jafnvægi á fjármálamarkaði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir eignaverð og hagsmuni fjárfesta. Áform ráðherra eru því illa ígrunduð og geti kostað ríkið.“

Ábyrgðarformin söm að umfangi

Í löngu og ítarlegu skjali frá sjóðunum sem alls telur 69 einstök efnisatriði segja þeir það meðal annars engu máli skipta hvort um einfalda eða sjálfskuldaraábyrgð ríkisins á skuldum ÍL-sjóðs sé að ræða, eins og mikil hefur verið rætt um.

„Mismunandi þýðing einfaldrar ábyrgðar annars vegar og beinnar ábyrgðar hins vegar að lögum lýtur ekki að umfangi ábyrgðarinnar sem slíkrar heldur aðeins að skilyrðum þess að ábyrgðin verði virk, m.ö.o. hvað þurfi til að koma svo unnt sé að ganga að ábyrgðarmanni um efndir.“

Í báðum tilvikum nái skuldbinding ábyrgðarinnar hins vegar til allra skuldbindinga sjóðsins. „Ábyrgð íslenska ríkisins nær þannig til allra skuldbindinga ÍL-sjóðs óháð ábyrgðarforminu, þar með talið til skuldbindinga sjóðsins um vaxtagreiðslur í framtíðinni, allt til lokagjalddaga.“

Er þetta samhljóða áliti lögfróðs en ónafngreinds viðmælanda Viðskiptablaðsins frá því í nóvember síðastliðnum, sem taldi að „einföld ábyrgð fæli ekki á nokkurn hátt í sér minni ábyrgð á viðkomandi skuldbindingu en sjálfskuldarábyrgð. Einungis fælist í fyrrnefndu ábyrgðinni flóknara og seinlegra innheimtuferli.“

Viðmælandinn bætti svo við að engu væri líkara en að margir rugluðu þessum mun saman við þann milli beinnar og óbeinnar ábyrgðar sem væri annar og meiri. „Óbeina ábyrgð mætti mun frekar túlka á þann hátt er fjármálaráðherra heimfærði á þá einföldu.“

Bjarni Benediktsson kynnti skýrslu og hugmyndir um slit og uppgjör ÍL-sjóðs í október síðastliðnum. Í skýrslunni kemur fram að til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða eða tæplega 200 milljarða að núvirði.

Miðað við stöðuna um síðustu áramót, telur fjármálaráðuneytið að ef ÍL-sjóði yrði slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi ríkissjóður aðeins þurfa að leggja fram um 81 milljarð króna til uppgjörs ríkisábyrgðar.

Fjármálaráðuneytið hefur þó lýst því yfir að æskilegast væri að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur og að reynt verði við samningaleiðina til þrautar áður en eiginleg slitameðferð hefjist.

Í lok febrúar lýsti framangreindur hópur tuttugu lífeyrissjóða því yfir að ekki væri grundvöllur fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins að óbreyttu þar sem ekki væri komið til móts við kröfur þeirra um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins sem eina af grunnforsendum slíkra viðræðna.