Þeir tuttugu lífeyrissjóðir sem sín á milli eiga bróðurpart skuldabréfa ÍL-sjóðs segja ekki grundvöll fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins að óbreyttu. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá hópnum.

„Fulltrúar ráðuneytisins hafa ekki komið til móts við kröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins í umleitunum þess um mögulegt uppgjör,“ segir í þar meðal annars.

„Á meðan ekki er komið til móts við grundvallarkröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir þjóna samningaviðræður við fjármálaráðuneytið því ekki tilgangi. Um það er full samstaða meðal sjóðanna.“

Segja svör Bjarna hafa komið sér á óvart

Lífeyrissjóðirnir segja svör Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í síðustu þess efnis að ekki sé verið að óska eftir samkomulagi um skerðingu eigna hafa komið sér á óvart.

„Boðaðar ráðstafanir í tengslum við slit ÍL-sjóðs, sem miða að því að lækka verulega fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins, með lagasetningu náist ekki samningar, leiða að óbreyttu til tugmilljarða króna tjóns lífeyrissjóðanna og þar með almennings í landinu í formi tapaðra lífeyrisréttinda. Við blasir að látið yrði reyna á allar slíkar aðgerðir fyrir dómstólum.“

Viðskiptablaðið sagði frá því í desember að sjóðirnir hefðu hafnað viðræðum við fulltrúa fjármálaráðuneytisins um uppgjör Íbúðabréfanna á grundvelli tillaga Bjarna. Davíð Rudólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sem fór fyrir starfshóp sjóðanna í málinu, sagði þá að Gildi væri eftir sem áður reiðubúinn til að hlusta á tillögur af hálfu ráðherra og Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lýsti yfir samskonar vilja.

Steinþór Pálssón, milligöngumaður ríkisins í viðræðum við eigendur bréfanna, sagðist í viðtali við blaðið í janúar áfram eiga í óformlegu samtali við lífeyrissjóðina og aðra kröfuhafa, og sagðist vongóður um að hægt yrði að hefja viðræður á næstunni.