Festi hefur gengið frá kaup­réttar­samningum við starfs­fólk sitt í sam­ræmi við kaup­réttar­á­ætlun sem var sam­þykkt á aðal­fundi fé­lagsins í byrjun mars.

Aðal­fundur gaf stjórn heimild til að gera kaup­réttar­samninga við allt fast­ráðið starfs­fólk sam­stæðunnar um kaup á hlutum í fé­laginu.

Mark­mið á­ætlunarinnar er að tengja hags­muni starfs­fólks við af­komu og lang­tíma­mark­mið fé­lagsins og hlut­hafa þess.

Í kaup­hallar­til­kynningu fé­lagsins í morgun er greint frá því að allt tóku 1.118 starfs­menn sam­stæðunnar taka þátt í kerfinu sem nær til allt að 2.917.980 hluta á ári, eða 8.753.940 hluta fyrir öll þrjú árin, miðað við 100% nýtingu kaup­rétta.

Kaup­verð hluta er vegið meðal­verð í við­skiptum með hluta­bréf fé­lagsins síðustu tíu við­skipta­daga fyrir samnings­dag, sem er 24. apríl 2024, eða kr. 191,50 hver hlutur.

Sam­kvæmt á­ætluninni öðlast hver kaup­réttar­hafi rétt til að kaupa hluti í Festi fyrir að há­marki 500.000 krónur einu sinni á ári í þrjú ár, þ. e. eftir birtingu árs­fjórðungs­upp­gjörs vegna 1. árs­fjórðungs fyrir árin 2025, 2026 og 2027.

Í tilkynningu segir að starfs­fólki sé heimilt að fresta nýtingu sinni á réttinum, í heild eða hluta, á fyrsta og/eða öðru nýtingar­tíma­bili til næsta nýtingar­tíma­bils eða þess þriðja. Að loknu þriðja nýtingar­tíma­bili falla allir ó­nýttir kaup­réttir niður.