Gengið hefur verið frá kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum en enn á eftir að semja við félög á opinbera vinnumarkaðinum, það eru ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg.

Viðræður standa nú yfir en ákveðnar fylkingar hafa boðað að þau muni sækja frekari hækkanir fyrir sína félagsmenn og nýverið ákvað Sameyki til að mynda að vísa kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir breiða sátt hafa verið um stefnuna sem Stöðugleikasamningurinn markaði, sem fylgja þurfi eftir.

„Það liggur alveg fyrir miðað við yfirlýsingar stjórnvalda sem hafa komið fram opinberlega að það er ekkert umboð til að semja um eitthvað annað en samið hefur verið um á almenna vinnumarkaðnum. Það þýðir að annaðhvort verður verkefnið klárað í sátt eða átökum. Það kemur í ljós en verkefnið mun klárast og við trúum því að það muni klárast í takt við línuna, það er einfaldlega of mikið í húfi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.