Frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um tekjuskatt varðandi barnabætur og sérstakan vaxtastuðning var lagt fram á Alþingi undir lok síðasta mánaðar en breytingarnar eru hluti af stuðningi ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði.

Samtök atvinnulífsins eru meðal þeirra sem hafa skilað inn umsögn um málið en fyrsta athugasemdin snýr að skömmum umsagnartíma. Óskað var eftir umsögn SA þann 18. apríl og hafði frumvarpið ekki verið lagt fram í samráðsgátt fyrir fram og því gafst hagsmunaaðilum verulega skammur tími til að kynna sér málið.

Að öðru leyti er vísað til þess að árleg framlög til barnabótakerfisins aukist um þrjá milljarða í ár, til viðbótar við fyrri áform, og um tvo milljarða til viðbótar á næsta ári. Þá er áætlað að umfang sérstaks vaxtastuðnings nemi fimm til sjö milljörðum.

Ríkissjóður verði síðan af nokkrum tekjum vegna þessa, á sama tíma og hann verður rekinn með halla næstu ár. Í ljósi þess árétta samtökin að þa sé mikilvægt að ráðist sé í forgangsröðun í ríkisútgjöldum.

„Ekki er svigrúm í ríkisrekstri til útgjaldaaukningar í tilteknum málaflokkum án þess að heildstæð forgangsröðun fari fram samhliða og dregið úr útgjöldum í öðrum málaflokkum á móti. Að mati samtakanna er ótækt að útgjaldaaukningin leiði til aukinnar skattlagningar á atvinnulífið enda er ekki gert ráð fyrir henni við kostnaðarmat þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir. Skattheimta er nú þegar óvíða, ef nokkurs staðar, meiri en á Íslandi og brýn þörf á að draga þar úr fremur en að bæta í,“ segir í umsögn SA.

Þá telja samtökin að réttast væri að aðgerðir yfirvalda mótuðust af yfirlýstri stefnu þeirra í tengslum við það umboð sem þeim er falið í lýðræðislegum kosningum. Kjarasamningagerð ætti að snúa að kjörum launafólks á vinnumarkaði þar sem samningsaðilar eru stéttarfélög og vinnuveitendur

„Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum í gegnum tíðina hefur hins vegar verið töluverð í formi margvíslegra aðgerða sem hafa krafist verulegra fjárútláta af hálfu ríkissjóðs. Farsælla væri ef aðkoma þeirra einskorðaðist við umgjörð kjarasamningaumhverfisins, þ.m.t. með uppfærðri vinnulöggjöf sem stuðlar að skilvirkari kjarasamningagerð en nú er raunin,“ segir enn fremur í umsögninni.

SA kveðst fagna umræðum um að vaxtabótakerfið verði endurskoðað og mögulega lagt niður í núverandi mynd á næstu árum. Færa megi rök fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið sé til þess fallinn að torvelda miðlum peningastefnunar og stuðlað að hækkun húsnæðisverðs.

Þá taka samtökin undir umsögn Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, sem benda á að hluti af tillögunum sem koma fram í frumvarpinu um ráðstöfun á sérstökum vaxtastuðningi muni reynast illmögulegur í framkvæmd. SFF leggja til að frumvarpinu verði breytt þannig ef ráðstafa eigi sérstökum vaxtastuðningi inn á lán verði eingöngu heimilt að ráðstafa honum til innborgunar á höfuðstól.

„Ljóst er að mati SFF að ráðstöfun á sérstökum vaxtastuðningi til lækkunar á afborgunum lána kallar á umfangsmiklar breytingar og tæknilegar útfærslur hjá lánveitendum, sem líklegt er að hafi í för með sér töluverðan kostnað. Ennfremur þykir ekki raunhæft að slíkar breytingar geti náð fram að ganga innan þeirra tímamarka sem fjallað er um í frumvarpinu,“ segir í umsögn SFF.