Breska námufyrirtækið Anglo American hefur fengið boð frá samkeppnisaðilanum sínum, BHP, um hugsanlega yfirtöku fyrir 31 milljarða punda. Samkvæmt fréttamiðlinum BBC er Anglo American að íhuga tilboðið.

BHP hefur einnig staðfest tilboðið og sagði að það myndi veita fyrirtækinu aðgang að koparnámum á heimsmælikvarða.

Anglo American rekur námur í löndum eins og Chile, Suður-Afríku, Brasilíu og Ástralíu og voru hlutabréf fyrirtækisins metin á 29 milljarða punda áður en tilboðið var gert opinbert.

Ástralska fyrirtækið BHP er stærsta skráða námufyrirtæki í heimi með 229 milljarða dala markaðsvirði. BHP keypti einnig koparfyrirtækið Oz Minerals fyrir rúmu ári síðan fyrir 9,6 milljarða dala.

Gengi Anglo American hefur lækkað um tæp 10% frá því í fyrra og segja sérfræðingar hjá fjármálaþjónustufyrirtækinu KCM Trade að hlutabréfastaða fyrirtækisins hafi gert það enn aðlaðandi fyrir hugsanlegum yfirtökutilboðum.