Flugfélagið Play flutti 13.488 farþega í janúar, samanborið við tæplega 18 þúsund farþega í desember síðastliðnum. Sætanýting hækkaði á milli mánaða úr 53,2% í 55,7%. Þetta kemur fram í flutningatölum Play sem birtar voru í dag.

„Mikill fjöldi kórónuveirusmita á síðustu mánuðum hefur sett hik í markaðinn og félagið aðlagaði flugáætlun sína í janúar í samræmi við það. Bókunarstaða fyrir næstu mánuði er þó mjög sterk og af henni að dæma er nokkuð augljóst að fólk er tilbúið að ferðast á sama tíma og áhrif faraldursins fara dvínandi,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt segir að daglegar bókanir í janúar hafi að jafnaði verið þrisvar sinnum hærri samanborið við daglegar bókanir í desember. „PLAY er þó enn í góðri stöðu til að takast á við sveiflur í eftirspurn með sveigjanlegum rekstri, traustri fjárhagsstöðu og miklu haldbæru fé,“ að því er kemur fram í tilkynningunni. 88,5% flugferða PLAY í janúarmánuði fóru á réttum tíma þrátt fyrir krefjandi veðurskilyrði oft og tíðum.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Janúar er alla jafna krefjandi mánuður í fluggeiranum og þess heldur á tímum heimsfaraldurs. Það gleður okkur því að sjá hækkandi sætanýtingu á milli mánaða en í venjulegu árferði væri sætanýting hærri í desember miðað við janúar en ekki öfugt. Það er einnig mjög hvetjandi að fylgjast með góðum viðtökum á nýjum áfangastöðum félagsins og sterkri bókunarstöðu inn í sumarið. Í vor munum við auka starfsemi okkar umtalsvert með nýjum flugvélum, nýjum áfangastöðum í Evrópu og að sjálfsögðu nýjum flugleiðum yfir Atlantshafið. Vegna jákvæðrar þróun í viðskiptaumhverfi okkar, dvínandi áhrifa kórónuveirufaraldursins á hegðun fólks og ört vaxandi eftirspurnar er ég fullviss um að við séum að auka framboð á hárréttum tímapunkti."