Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 7,5% í janúar, en árshækkun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri síðan í febrúarmánuði árið 1982. Verðbólgan hefur nú mælst yfir 6% fjóra mánuði í röð. Hagfræðingar höfðu spáð um 7,3% verðbólgu, en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem verðbólgan mælist umfram spám greiningaraðila, að því er kemur fram í grein Bloomberg .

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6% í janúar, samanborið við 5,5% í desember. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan árið 1982.

Verðhækkanir voru í flestum geirum og hækkaði matarverð til að mynda um 7% milli ára. Húsnæðiskostnaður hækkaði um 4.4% og orkuverð um 27%. Fatnaður hækkaði auk þess í verði um 5,3% milli ára.

Nýir bílar hækkuðu um rúm 12% milli ára og notaðir bílar um rúm 40%, en mikill skortur á hálfleiðurum hjá helstu bílaframleiðundum hefur hægt á framleiðslu nýrra bíla. Því hefur eftirspurn aukist gríðarlega eftir notuðum bílum.

Seðlabanki Bandaríkjanna mun funda dagana 15.-16. mars og er gert ráð fyrir því að bankinn ljúki þar skuldabréfakaupum sínum og hefji vaxtahækkunarferli. Greiningaraðilar spá þrem til fjórum vaxtahækkunum á árinu.