Árið 2023 var gjöfult hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP, sem fagnaði 20 ára afmæli leiksins EVE Online. Félagið skilaði 5,6 milljóna dala hagnaði í fyrra, sem nemur 776 milljónum króna á gengi þess árs, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Tap var af rekstrinum árið áður.

Heildartekjur ársins 2023 námu 73,2 milljónum dala, eða sem nemur 10,1 milljarði króna, sem var aukning um tæp 7% milli ára. Var þar einna helst um auknar þjónustutekjur að ræða.

Tölvuleikjasamstæðan hefur verið í eigu suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss Corp. frá árinu 2018. Samkvæmt samstæðureikningi Pearl Abyss Iceland ehf. nam tap samstæðunnar 18,8 milljónum dala árið 2023, sem samsvarar 2,6 milljörðum króna.

Meginástæða fyrir tapi ársins er sögð aukin fjárfesting í þróunarverkefnum þar sem samstæðan gjaldfærir öll þróunarverkefni. Árið 2022 nam tap ársins 70,1 milljón dala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.