Pershing Square, vogunarsjóður auðjöfursins William Ackman, hefur selt sig úr Netflix. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.
Ackman sagði í janúar á þessu ári að hann hefði keypt 3,1 milljón hluti í Netflix. Kaupin voru tilkynnt 26. janúar, en vogunarsjóðurinn byrjaði að kaupa hluti 21. janúar. Á tímabilinu var gengi bréfa Netflix á milli 351,46 dali á hlut og 409,15 dali á hlut. Virði eignarhlutarins var því 1,1 milljarðar dala á tímabilinu.
Þegar markaðir lokuðu á miðvikudaginn var gengi Netflix komið niður í 226 dali á hlut. Þannig má áætla að Ackman hafi tapað 400 milljónum dala á fjárfestingu sinni.
Sjá einnig: Gengi Netflix fellur um fjórðung
Gengi Netflix hefur lækkað um 40% frá lokun markaða á miðvikudaginn, og stendur nú í tæpum 212 dölum á hlut. Í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs, sem birt var á miðvikudaginn, kom fram að áskrifendum Netflix hefði fækkað í fyrsta sinn í meira en áratug.
Áskrifendum fækkaði um 200 þúsund á ársfjórðungnum og á félagið von á að þeim muni fækka um 2 milljónir til viðbótar á yfirstandandi ársfjórðungi.
Mikil samkeppni er á streymisveitumarkaðnum og hafa streymisveitur eins og Hulu, Disney+ og HBO Max aukið hlutdeild sína á markaðnum. Netflix hyggst bregðast við samdrættinum með því að leita leiða til að rukka um 100 milljónir heimila sem nota aðgang annarra áskrifenda.