Seðlabankinn tilkynnti á þriðjudag um breytingar á reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Breytingin felur aðallega í sér að ákvæði gildandi reglna um lágmarks binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma verðtryggðra útlána verða afnumin frá og með 1. júní. Umrædd ákvæði reglnanna hafa verið í gildi frá því seint á síðustu öld. Frá árinu 1996 hefur innlánastofnunum verið óheimilt að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga með minna en þriggja ára bindiskyldu. Tveimur árum síðar var innlánsstofnunum svo gert óheimilt að binda verðtryggð útlán í skemmri tíma en fimm ár.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir bankann fagna afnámi lágmarks binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma útlána. „Við teljum að með þessari breytingu verði til skilvirkara vaxtaróf verðtryggðra vaxta sem er til hagsbóta fyrir sparifjáreigendur, sem og lántakendur. Til dæmis gæti þetta leitt til þess að kjör á verðtryggðum útlánum með breytilegum vöxtum batni í samanburði við önnur lánaform. Það leiðir svo til þess að lántakendur hafa úr fleiri góðum kostum að velja.“

Eins og fyrr segir munu breytingarnar taka gildi 1. júní næstkomandi. Benedikt segist aðspurður reikna með því að Arion banki muni fljótlega eftir gildistöku vera tilbúinn með nýjar lánaafurðir sniðnar að þessum breytingum. „Það tekur smá tíma að undirbúa svona breytingar en ég geri fastlega ráð fyrir að það takist í tæka tíð.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.