Samkvæmt greiningu Seðla­banka Ís­lands, sem birtist í Peninga­málum í morgun, hafði álagning innlendra fyrirtækja hlutfallslega lítil áhrif til verðbólgu í fyrra. Áhrifin voru neikvæð árið 2021 og voru neikvæð í heildina litið á árabilinu 2020-2022.

Seðla­bankinn réðst í greininguna vegna þess að aukinn hagnaður sumra fyrir­tækja hefur leitt af sér um­ræðu um hug­tök eins og „græðgis­verð­bólgu“ (e. greed­flation) og „hagnaðar­drifin verð­bólga“ (e. profit-led inflation) þar sem ýmist er vísað til þess að græðgi fyrir­tækja eða hagnaður þeirra sé megin­or­saka­valdur þessarar miklu verð­bólgu.

„Al­mennt á­kvarða fyrir­tæki af­urða­verð sem á­lagningu ofan á jaðar­kostnað (þ. e. kostnaðinn sem felst í því að fram­leiða eina einingu til við­bótar). Þannig getur hækkun af­urða­verðs ýmist endur­speglað aukna á­lagningu eða hækkun á jaðar­kostnaði. Bein tengsl eru því á milli verð­bólgu og á­lagningar­hlut­falls en flóknara sam­spil er milli verð­bólgu og breytinga á hagnaði,” segir í greiningu SÍ.

Seðla­bankinn hefur fram til þessa skoðað þróun hagnaðar fyrir­tækja (eins og hann er mældur með rekstrar­af­gangi sam­kvæmt þjóð­hags­reikningum) og fram­lag hans til verð­bólgu undan­farinna ára.

Í greiningunni er bent á að á­lagning og hagnaður fyrir­tækja getur aukist án þess að í því felist aukið verð­lagningar­vald fyrir­tækja eða annars konar vandi á fram­boðs­hlið þjóðar­bú­skaparins. Aukin eftir­spurn getur til dæmis leitt til þess að verð, á­lagning, hagnaður og fram­leiðsla eykst á sama tíma.

Heimild: Peningamál
Heimild: Peningamál

„Í því til­felli skilar verðhækkunin ekki að­eins auknum hagnaði fyrir fyrir­tækið heldur þjónar hún einnig þeim til­gangi að stilla af fram­boð og eftir­spurn svo að ekki myndist um­fram­eftir­spurn. Þótt sam­band aukinnar eftir­spurnar og á­lagningar­hlut­falls sé ekki fyrirfram gefið gæti snörp og ó­vænt aukning eftirspurnar, líkt og í kjöl­far far­sóttarinnar, leitt tíma­bundið til hærri á­lagningar og hagnaðar ef meiri tregða er í við­bragði jaðar­kostnaðar t. d. vegna gildandi kjara­samninga.”

Seðla­bankinn segir eina leið til þess að svara því hvort verð­bólgu undan­farinna ára megi rekja til aukinnar á­lagningar inn­lendra fyrir­tækja er því að styðjast við fræði­legt líkan til að greina hvaða kerfis­skellir hafa verið megin­drif­kraftar verð­bólgu undan­farinna ára.

„Til þess að gera þetta er notast við DSGE-líkan Seðla­bankans, DYNI­MO, en einn af skellum þess eru breytingar á á­lagningar­hlut­falli fyrir­tækja.“

Með líkaninu má setja verð­bólgu­þróun, eins og hún er mæld með vísi­tölu neyslu­verðs, í sam­hengi við aðrar hag­stærðir og meta á­lagningu inn­lendra fyrir­tækja um leið.

„Verð­bólga hefur verið mikil undan­farin ár. Hagnaður fyrir­tækja, eins og hann er mældur sam­kvæmt þjóð­hags­reikningum, hefur aukist á sama tíma og virðist hlutur hans í verð­bólgunni meiri en áður. Fram­lagið er hins vegar minna en fram­lag launa­kostnaðar á þessu tíma­bili en það var t. d. tæp­lega tvö­falt meira árið 2022. Fram­lag hagnaðar fyrir­tækja til verð­bólgu er jafn­framt ná­lægt sögu­legu meðal­tali ef horft er til tíma­bilsins í heild frá því að far­sóttin skall á.“

Heimild: Peningamál
Heimild: Peningamál

„Hafi á­lagning fyrir­tækja ekki aukist að neinu marki hefur það nokkra þýðingu fyrir verð­bólgu­horfur. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að svig­rúm sé til lækkunar á­lagningar­hlut­falls til móts við frekari hækkun jaðar­kostnaðar, t. a. m. í komandi kjara­samningum.“

„Enn er spenna til staðar í þjóðar­bú­skapnum og á vinnu­markaði. Í slíku um­hverfi er meiri hætta á að fyrir­tæki verndi á­lagningar­hlut­föll sín og fleyti kostnaðar­hækkunum út í verð­lag og að launa­fólk reyni að endur­heimta fyrra launa­hlut­fall eins og áður var lýst. Aukið taum­hald peninga­stefnunnar vinnur gegn þessari þróun með því að draga úr eftir­spurn sem gerir fyrir­tækjum erfiðara um vik að fleyta kostnaði út í verð - lag og neyðir þau til að taka á sig kostnaðar­hækkanir í gegnum minni á­lagningu,“ segir í greiningu Seðla­bankans.