Flugmenn Alaska Airlines höfðu tilkynnt um viðvörunarljós sem birtust og vöruðu við þrýstingstapi í þremur flugferðum áður en stórt gat rifnaði á skrokk vélarinnar síðustu helgi. Þetta kemur fram í rannsókn bandarískra flugmálayfirvalda um atvikið.

Alaska Airlines ákvað í kjölfar kvartananna að banna hinni umræddu flugvél að fljúga lengri flugferðir yfir sjó svo hægt væri að nauðlenda vélinni ef eitthvað kæmi upp á.

Bandarísk flugmálayfirvöld kyrrsettu einnig 171 flugvél af sömu gerð meðan öryggisrannsókn heldur áfram en flugvélin sjálf var aðeins tíu vikna gömul. Á þeim tíma var flugvélin metin örugg af flugmálayfirvöldum FAA.

Samkvæmt nýjustu yfirlýsingu frá Alaska Airlines er viðhaldsteymi flugfélagsins að framkvæma eigin rannsóknir á 737-9 vélum meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsóknar FAA.

„Kyrrsetning allra 737-9 MAX flugvélanna okkar hefur haft veruleg áhrif á rekstur okkar. Við þurftum að aflýsa 170 ferðum á sunnudaginn og 60 ferðum fyrir mánudaginn og við búumst við enn fleiri röskunum. Öryggi er í forgangi hjá okkur og við hörmum innilega áhrifin sem þessi atburður hefur haft á viðskiptavini okkar og farþega.“

Fáar flugvélar hafa verið eins gagnrýndar og Boeing 737 MAX en seint árið 2018 og snemma árs 2019 hröpuðu tvær flugvélar í Indónesíu og Eþíópíu sem leiddi til dauða 346 einstaklinga. Bæði slysin máttu rekja til búnaðar í vélunum, MCAS, sem átti að koma í veg fyrir ofris.

Flugmenn beggja véla vissu ekki af MCAS-búnaðinum en Boeing vildi meina að mannleg mistök og langur viðbragstími þeirra hafi spilað stóran þátt í flugslysunum.