Andri Már Ingólfs­son stofnandi og fyrrum eig­andi Primera Tra­vel Group, Sveinn Ragnars­son fjár­mála­stjóri fé­lagsins og Arion Banki voru sýknaðir af skaða­bóta­kröfum tveggja þrota­búa í héraðs­dómi í Herning á Jót­landi á föstu­daginn.

Skipta­stjórar þrota­búanna Tra­velco Nor­dic og Tra­velco Holding kröfðust um 50 milljóna danskra króna eða 1 milljarður ís­lenskra króna frá Andra Má og Sveini og 58 milljóna danskra króna eða um 1,2 milljarða frá Arion banka, sam­kvæmt frétt FF7.

„Að draga mig og fyrrum fjár­mála­stjóra inn í þessi mála­ferli 5 árum eftir að Arion banki tekur af mér fyrir­tækið, var afar sér­stakur gjörningur,“ segir Andri Már í sam­tali við FF7.

Málið á sér langan að­draganda en í októ­ber 2018 varð flug­fé­lagið Primera Air, sem var í eigu Primera Tra­vel Group sem Andri Már átti, gjald­þrota. Í kjöl­farið var eignar­hald á nokkrum nor­rænum ferða­skrif­stofum sem til­heyrðu sam­stæðunni fært yfir í danska fé­lagið Tra­velco Nor­dicsem Andri Már átti.

Ís­lensku ferða­skrif­stofurnar Heims­ferðir og Terra Nova, sem voru hluti af Primera Tra­vel, gótu undir hatt Tra­velco Nor­dic í desember 2018 til að styrkja eigin­fjár­stöðu fé­lagsins að kröfu danska ferða­á­byrgða­sjóðsins.

Um mitt ár 2019 leysti Arion Banki Tra­velco Nor­dic til sín sem hluti af upp­gjöri sínu við Andra Má en hálfu ári síðar seldi bankinn Terra Nova til ís­lensku ferða­skrif­stofunnar Tra­vel Connect.

Sam­kvæmt danska ferða­tíma­ritinu Stand­by kostuðu gjald­þrot Tra­velco Nor­dic og Tra­velco Holding danska ferða­tryggingar­sjóðinn 68 milljónir danskra króna sem sam­svara um 1,4 milljörðum króna á gengi dagsins. Danska ríkið veitti fyrir­tækjunum til við­bótar Co­vid-lán að upp­hæð 1,7 milljarða króna sem var aldrei endur­greitt.

Í vetur fóru því skipta­stjórar þrota­búanna tveggja í mál á hendur fyrrum stjórnendum Tra­velco Nor­dic í Dan­mörku, Primera Tra­vel Group á Ís­landi og Arion banka.

Sam­kvæmt FF7 snérist mál­flutningur að mestu um meint of­mat á virði ís­lensku ferða­skrif­stofanna og að þar sem Arion Banki hafi verið með veð í þeim hafi til­flutningurinn frá ís­lenska fé­laginu yfir í Tra­velco Nor­dic ekki styrkt eigin­fjár­stöðu fé­lagsins í takt við bók­fært virði.

Sem fyrr segir voru Andri Már og Sveinn sýknaðir af kröfum Tra­velco Nor­dic og Arion banki sýknaður af kröfum Tra­velco Holding.