Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tilkynnti í byrjun síðasta mánaðar um að fjölmiðlarekstur félagsins yrði skipt upp í tvær aðskildar rekstrareiningar. Þessi ráðstöfun vakti athygli á markaðnum, ekki síst vegna orðróms sem hefur verið viðloðandi Sýn í nokkurn tíma um að horft sé til þess að selja hluta af fjölmiðlarekstrinum. Uppstokkunin kann að vera undanfari slíkrar sölu.

Sýn stofnaði rekstrareininguna „Vefmiðlar og útvarp“ utan um allar fjölmiðlaeiningar sínar að Stöð 2 undanskilinni. Auk þess verða Já.is og Bland.is, sem Sýn festi nýlega kaup á, innan nýju rekstrareiningarinnar.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Ari Edwald, fyrrum forstjóri 365 miðla, fari fyrir hópi fjárfesta sem hafa áhuga á að kaupa ráðandi hlut í miðlum sem falla undir nýju rekstrareininguna Vefmiðlar og útvarp, þ.e. Vísi og útvarpsmiðlana Bylgjuna, FM957 og X-ið. Þá sé fjárfestahópurinn kominn með fjármögnun frá Landsbankanum. Lagt væri upp með að Sýn færi áfram með hlut í miðlunum.

Ari vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið leitaðist eftir ‏því. Jón Skaftason, stjórnarformaður Sýnar, vildi ekki svara fyrir um vangaveltur og sagði enga ákvörðun um mögulega eignasölu hafa verið tekna.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.