Fyrrverandi meðeigendur Samhentra Kassagerðar rata ofarlega á lista yfir þá 150 Íslendinga sem voru með mestar fjármagnstekjur í fyrra.

Greint var frá því í apríl í fyrra að fé­lögin Álfa­kór og Inn­ís, sem áður fóru fyrir 50% hlut í Sam­hentum Kassa­gerð hf., hefðu aukið við eignar­hlut sinn í fé­laginu með kaupum á hluta­fé þeirra Ás­geirs Þorvarðarsonar og Bjarna Hrafnssonar.

Ásgeir Þorvarðarson, fyrrverandi stjórnarformaður Samhentra, fór með 22% hlut í félaginu en fjármagnstekjur hans árið 2024 námu ríflega milljarði króna í fyrra og var hann tólfti tekjuhæsti Íslendingurinn. Bjarni, sem var einn upp­haf­legra stofn­enda Sam­hentra árið 1995, fór með 17,8% hlut í félaginu en fjármagnstekjur hans námu 823 milljónum króna.

Ef miðað er við að fjármagnstekjurnar séu alfarið tilkomnar vegna sölunnar á eignarhlutunum má ætla að virði fyrirtækisins hafi verið metið á um 4,7 milljarða í viðskiptunum. Ekki er útilokað að hluti fjármagnsteknanna sé tilkominn af öðrum ástæðum. Samhentir greiddu þó ekki út arð í fyrra.

Fyrirtækið hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2024 en árið 2023 nam velta samstæðu Samhentra 6,6 milljörðum króna og hagnaðist félagið um 288 milljónir. Eignir voru bókfærðar á tæplega 5,2 milljarða og eigið fé nam tæpleg 1,1 milljarði.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.