Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur boðað fund um stöðu ÍL-sjóðs og næstu skref vegna úrvinnslu eigna og skulda hans. Beint streymi af fundinum, sem hefst kl. 15:30 í dag, má finna hér að neðan.

Bjarni skipaði verkefnisstjórn í mars síðastliðnum til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Verkefnisstjórnina skipa Perla Ösp Ásgeirsdóttir, Stefán Pétursson og Lúðvík Örn Steinarsson.

„Markmið úrvinnslu er að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs,“ segir í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í mars.

ÍL-sjóður, sem hét áður Íbúðalánasjóður, var með neikvætt eigið fé upp á 213 milljarða króna í lok júní síðastliðins. ÍL-sjóður, sem er í eigu ríkisins, tapaði 16,6 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs og 13,9 milljörðum á síðasta ári.

Í fjármálaáætlun ríkissjóðs fyrir árin 2023-2027 kemur fram að verði sjóðurinn rekinn út líftíma skulda, og að gefnum forsendum um þróun vaxta og verðbólgu, megi gera ráð fyrir að núvirt framtíðartap ÍL-sjóðs geti verið um 230 milljarðar króna.