Tækifærin í hagræðingu hjá ríkinu liggja í auknum samrekstri í stofnanakerfinu, sameiginlegum innkaupum á vörum og þjónustu, betri nýtingu vinnurýma og mannauðs, sem og aukinni sjálfvirknivæðingu og nýtingu gervigreindar í daglegum störfum. Þetta kemur fram í grein sem Sara Lind Guðbergsdóttir, forstjóri Ríkiskaupa, skrifar í sérblaðið Viðskiptaþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.

„Árið 2023 keypti ríkið vörur, þjónustu og framkvæmdir fyrir rúma 260 milljarða og greiddi um 27 milljarða í leigu á húsnæði,“ skrifar Sara Lind. „Það er því eftir miklu að slægjast við að taka stjórn á þessum fjármunum og ráðstafa þeim með eins skynsamlegum hætti og frekast er unnt. Það er ekki einungis sjálfsögð krafa að farið sé vel með skattfé heldur getur aukið aðhald á þessu sviði skilað gríðarlegum fjármunum til samfélagsins, fjármunum sem nýta má þá til áframhaldandi styrkingar og uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum þess samfélags sem við viljum búa í.“

Nýtt hjúkrunarheimili á hverju ári

Í greininni kemur fram að ávinningur af útboðum og rammasamningum Ríkiskaupa árið 2023 hafi numið um þremur milljörðum króna.

„Sem dæmi má nefna að 4% viðbótarsparnaður við opinber innkaup, umfram það sem nú þegar hefur náðst með opinberum innkaupaferlum, getur skilað samfélaginu aukalega rúmum tíu milljörðum á ársgrundvelli.

Það liggur í augum uppi að hægt er að hafa áhrif á efnahagsbata í gegnum opinber innkaup. Fyrir ávinninginn af því mætti reisa eitt 144 rýma hjúkrunarheimili á ári hverju, en heilbrigðisráðuneytið hefur einmitt bent á að þörf sé fyrir um 1.500 ný rými af því tagi fram til ársins 2040."

„Í fyrstu kann það að hljóma sem þversögn að beita opinberum innkaupum sem strategísku tæki til að auka ávinning ríkisins af viðskiptum þegar þörfin til að efla markaðinn er einnig til staðar. Með markvissum stefnumótandi innkaupum er hins vegar hægt að gera hvoru tveggja og það á alltaf að vera leiðarljósið í opinberum innkaupum. Efla samkeppni á markaði, hagkvæmni í innkaupum og hafa uppbyggileg áhrif á umhverfið með nýsköpun í rekstri.“

Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing. Hægt er að lesa hana í heild hér.