Töluverð uppbygging stendur fyrir dyrum í Borgarnesi. Íbúðabyggð í Bjargslandi mun þegar upp er staðið samanstanda af um það bil 80 einbýlis-, par- og fjölbýlishúsum, en auk þess stendur eitt þýðingarmesta þróunarverkefni síðari ára í bænum nú yfir: endurskipulagning og uppbygging hinnar sögufrægu Brákareyjar, sem meðal annars kemur fyrir í Egils sögu og hefur í seinni tíð verið mikilvægur hluti af bænum.

Eyjan – sem telur fjóra og hálfan hektara að stærð – var miðpunktur iðnaðar í bænum á síðustu öld en þegar Kaupfélag Borgfirðinga svo gott sem hvarf af sjónarsviðinu í kjölfar falls Sambandsins lagðist slík starfsemi að miklu leyti af og í dag hefur eyjan munað fífil sinn fegri.

Verði hluti miðbæjarkjarnans

„Þarna var sláturhús og frystihús og þarna voru bifreiðaverkstæði, það er meira að segja lítil höfn þarna. Það var rosalega mikið atvinnulíf í þessari eyju megnið af síðustu öld, en síðan þá hefur hún ekki verið nema svipur hjá sjón,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, Borgnesingur og nýráðinn sveitarstjóri Borgarbyggðar, sem ætlar eynni stórt hlutverk í framtíðarþróun bæjarins.

„Fyrir mitt leyti finnst mér þetta vera meðal áhugaverðari fasteignaþróunarverkefna á landinu um þessar mundir. Hugmyndin er fyrst og fremst að styrkja menningar- og mannlíf og ekki síður atvinnulíf sveitarfélagsins,“ en með því standa vonir til þess að eyjan verði hluti af miðbæjarkjarna bæjarins.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður sem fylgdi síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.