Töluverðar sveiflur hafa verið á gengi bréfa í kauphöllinni í dag, þannig var Icelandair á tímabili í morgun eina félagið sem hækkaði í verði , meðan Festi hafði þá lækkað næstmest, en nú hefur það snúist við. Úrvalsvísitalan lækkaði hins vegar um 0,16%, niður í 1.628,71 stig, í 1,2 milljarða heildarviðskiptum.
Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest líkt og síðustu daga , eða um 13,04%, niður í 3,0 krónur, í þó ekki nema 39 milljóna króna viðskiptum. Hefur gengið bréfa flugfélagsins ekki verið lægra síðan 8. apríl 2010, en þegar það fór hæst var það í 38,9 krónum þann 28. apríl 2016.
Hins vegar hækkaði gengi bréfa Festi um 5,77%, upp í 110 krónur, í 159 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt voru þau þriðju mestu í kauphöllinni í dag.
Tvö önnur félög hækkuðu um meira en 4 prósent í dag, það er Eik fasteignafélag sem hækkaði um 4,62%, upp í 6,8 krónur í 128 milljóna króna viðskiptum og bréf hins smásölufélagsins í kauphöllinni, Haga, sem hækkuðu um 4,24% í 32 milljóna króna viðskiptum og enduðu þau í 45,50 krónum.
Næst mest lækkun var hins vegar á bréfum Iceland Seafood, eða um 3,61%, niður í 7,20 krónu, í 20 milljón króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var svo á bréfum Sýnar, eða um 2,77%, í 42 milljóna króna viðskiptum og fóru þau í 24,55 krónur.
Mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 321,1 milljón krónur, og lækkuðu þau um 0,83%, í 477 krónur hvert bréf. Reginn var svo í næst mestu viðskiptunum eða fyrir 188,2 milljónir króna, en gengi bréfa fasteignafélagsins hækkuðu um 1,34%, upp í 18,85 krónur.