Carbfix hóf á dögunum tilraunir í Helguvík að nýta sjó í stað ferskvatns til varanlegrar bindingar koldíoxíðs (CO2) í berglögum. „Tilraunin er nýmæli á heimsvísu og mikilvægt skref í framþróun tækni til kolefnisbindingar,“ segir í tilkynningu félagsins.

Verkefnið nefnist Sæberg og er samvinnuverkefni Carbfix, ETH í Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og University College London. Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu með því að veita Carbfix aðstöðu í Helguvík.

Koldíoxíðið sem dælt er niður er sent til Íslands frá Sviss sem hluti af verkefninu DemoUpCARMA, sem ETH Zurich leiðir. Markmið DemoUpCARMA er að sýna fram á fýsileika tækni til föngunar, nýtingar, flutnings og bindingar á CO2, ýmist til að ná fram neikvæðri kolefnislosun – þ.e. föngun og bindingu úr andrúmslofti – eða draga úr losun frá iðnaði svo sem sementsframleiðslu, vistvænni orkuframleiðslu og efnaiðnaði.

Aðferð Carbfix til kolefnisbindingar felst í að leysa CO2 í vatni og dæla því niður í basaltberg þar sem það steinrennur og binst þannig varanlega. Takist að sýna fram á að unnt sé að nota sjó í stað vatns mun það fjölga til muna þeim svæðum þar sem hægt er að beita aðferðinni.

Carbfix segir að tilraunir á rannsóknastofu, sem unnar eru í samstarfi við Háskóla Íslands, hafi þegar gefið góða raun, en nú séu tilraunir á vettvangi hafnar í fyrsta sinn. Ferli niðurdælingar og steinrenningar verður rannsakað með margvíslegum vísindalegum aðferðum.

„Sæberg er eitt mikilvægasta rannsókna- og þróunarverkefni okkar,“ segir Edda Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix. „Beita má okkar núverandi tækni víða í heiminum en þessi nýja nálgun getur aukið möguleika hennar verulega.“

„Að komast á þetta mikilvæga stig er afrakstur góðs samstarfs við framúrskarandi samstarfsaðila,“ segir Einar Magnús Einarsson, verkefnisstjóri Sæbergs hjá Carbfix.

„Við erum mjög spennt fyrir framhaldinu og einnig stolt af því að Sæbergs-verkefnið hefur nú í tvígang verið frumkvöðull á heimsvísu, eftir tímamótaflutning á CO2 frá Sviss til Íslands sem hófst á síðasta ári. Það mun hafa verið í fyrsta sinn sem kolefni var flutt yfir landamæri til bindingar í jörðu, en niðurdæling á því fór fram með vatni með hefðbundnum hætti á Hellisheiði.“