Creditinfo og Two Birds, móðurfélag Aurbjargar, hafa undirritað samning um kaup Creditinfo á fasteignaverðmati Two Birds, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Eftir kaupin verður verðmatið hluti af þjónustuframboði fyrir áskrifendur Creditinfo auk þess sem að áskrifendur Aurbjargar munu áfram geta nýtt það við verðmat fasteigna.

Fasteignaverðmat Two Birds birtir áætlað markaðsvirði fasteignar, byggt á raungögnum og markaðsgögnum sem eru túlkuð með notkun gervigreindar. Verðmatið er nýtt daglega af fyrirtækjum og einstaklingum til að taka betri ákvarðanir í fasteignaviðskiptum.

„Með kaupunum á fasteignaverðmati Two Birds gefst okkur kostur á að styðja enn betur við upplýsta ákvarðanatöku viðskiptavina Creditinfo. Þarfir fyrirtækja fyrir fjölbreyttar lausnir og áreiðanleg gögn aukast sífellt og er það mikilvægt fyrir okkur hjá Creditinfo að geta mætt þeim þörfum og gott betur,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi‏.

Með kaupum Creditinfo á fasteignaverðmatinu gefst áskrifendum Creditinfo kostur á að hagnýta verðmatið á þjónustuvef Creditinfo auk ítarlegra greininga á fasteignamarkaði og fasteignasöfnum fyrirtækja.

Fjártæknifyrirtækið Two Birds er móðurfélag Aurbjargar sem heldur úti fjártæknivefnum aurbjorg.is. Aurbjorg.is hjálpar neytendum með fjármál heimilisins, meðal annars með samanburði á ýmsum þjónustum og með því að veita betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu hverju sinni.

„Með sölu fasteignaverðmatsins til Creditinfo gefur það Two Birds möguleika á að einfalda reksturinn og leggja áherslu á að styrkja Aurbjörgu enn frekar í fjármálafræðslu og þjónustu kringum fjármál einstaklinga og heimila. Aurbjörg mun áfram birta uppfærð verðmöt skráðra eigna mánaðarlega og munu viðskiptavinir geta flett upp verðmati eigna eins og áður. Aurbjörg hefur þá sérstöðu að upplýsa neytendur um verð á margvíslegri þjónustu og veita viðskiptavinum upplýsingar til að taka upplýstar ákvarðanir í persónulegum fjármálum,“ segir Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri Two Birds.