Bresku dagblöðin Daily og Sunday Telegraph eru aftur komin í söluferli eftir að tilboð frá fjárfestingasamsteypunni RedBird IMI voru gerð ógild samkvæmt fréttamiðlinum BBC.

Samsteypan er frá Abu Dhabi en tilboðið var að mestu leyti fjármagnað af Sheikh Mansour bin Zayed bin Sultan al-Nahyan, eiganda knattspyrnuliðsins Manchester City og varaforseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Til stóð að eignarhald dagblaðanna yrði fært yfir til samsteypunnar en bresk stjórnvöld gripu inn í í janúar og settu fram lög sem banna erlendum ríkjum að eignast bresk dagblöð og tímarit.

Fjárfestingasamsteypan segir að áætlanir sínar séu ekki lengur framkvæmanlegar og að hún hafi átt uppbyggileg samtöl við stjórnvöld um að tryggja skipulagða sölu á báðum blöðunum.

Breskir þingmenn, lesendur og blaðamenn höfðu lýst yfir áhyggjum af því að blöðin gætu endað undir einræðisstjórn erlends ríkis. Ríkisstjórnin bætti við að löggjöfin myndi veita frekari vernd fyrir frjálsa fjölmiðla.