Við búumst við að Darwinismi snúi aftur eftir faraldurinn," segir í nýlegri skýrslu fluggreinenda HSBC um evrópska flugmarkaðinn. Mun færri flugfélög en búist var við urðu gjaldþrota í heimsfaraldrinum enda ákváðu stjórnvöld víðast hvar að halda lífinu í ferðaþjónustufyrirtækjum sem ekki bæru ábyrgð á útbreiðslu veirunnar. Nú dregur úr ríkisstuðningi við skuldum hlaðin flugfélög á sama tíma og olíuverð hefur hækkað skarpt frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Hátt olíuverð mun því flýta fyrir samþjöppun á flugmarkaðnum að mati HSBC.

Gjaldþrotahrina var í fluggeiranum á árunum 2018 og fram að upphafi faraldursins. Þá féll fjöldi flugfélaga á borð við Wow air hér á landi sem og Monarch, Germania, Flybe, Thomas Cook Airlines og XL Airways. Í faraldrinum hafa ný flugfélög verið stofnuð til að fylla í skarðið á borð við Play hér á landi, Flyr og Norse Atlantic Airways í Noregi og fjögur bandarísk flugfélög - Avelo, Breeze, Airbahn and Northern Pacific.

HSBC bendir á að vikið hafi verið frá reglum um nýtingu lendingaleyfis á flugvöllum meðan á heimsfaraldrinum stóð. Lendingaleyfi séu að verða takmörkuð auðlind á ný eftir því sem fluggeirinn tekur við sér. Aukin umhverfisvitund almennings muni líklega hafa í för með sér að erfiðara verði að bæta við nýjum flugbrautum á þétt setnum flugvöllum. Því til viðbótar hafi stöðvun flugvélaframleiðslu í faraldrinum leitt til þess að að framboð flugvéla sé minna en ætla mætti. Allt eykur þetta líkurnar á samþjöppun í fluggeiranum.

Telja norrænu flugfélögin of mörg

Í skýrslu HSBC er flugmarkaðurinn á Norðurlöndunum nefndur meðal markaða þar sem framboðið sé ósjálfbært og vænta megi samþjöppunar. Flyr og Norse Atlantic Airways hafi verið stofnuð til að fylla í skarð Norwegian, sem þó lifir enn þrátt fyrir að hafa margoft verið við bjargbrúnina. Þá hefur Finnair bætt við Atlantshafsflugi frá Stokkhólmi til að nýta vélar sem áður flugu inn á Asíumarkað sem er enn að mestu lokaður. Því eru félögin bæði á styttri flugleiðum og í Atlantshafsflugi fleiri en fyrir faraldurinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .