*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 19. febrúar 2019 14:41

„Ég gat ekki setið þarna inni lengur“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness strunsaði út af fundi með stjórnvöldum. Mögulegt að tekið verði upp 3. skattþrepið.

Ritstjórn
Vilhjálmur Birgisson, einn af leiðtogum verkalýðsfélaganna fjögurra sem farið hafa í samfloti í kjaraviðræðunum, strunsaði út af fundi með stjórnvöldum í hádeginu.
Haraldur Guðjónsson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og annar varaformaður Alþýðusambandsins gekk út af fundi forsetahópi sambandsins með stjórnvöldum uppúr hádegi að því er Fréttablaðið sagði frá.

Á fundinum kynntu fjórir ráðherrar tillögur ríkisstjórnarinnar til að auðvelda sættir á milli aðila vinnumarkaðarins, en á fundinum sátu auk Vilhjálms, þau Drífa Snædal forseti ASÍ og annar varaforseti sambandsins, Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. 

Samkvæmt RÚV ganga tillögurnar út í að tekið verði upp þriðja skattþrepið sem yrði lægra fyrir lægstu tekjurnar, auk hugmynda um aukin stofnframlög til húsnæðisfélaga sem ekki leituðust við að skila hagnaði. 

Í fyrstu neitaði Vilhjálmur um að tjá sig um ástæðu þess að hann hefði strunsað út, en spurður hvort hann hefði verið ósáttur við tillögurnar sagði hann. „Ég gekk út af fundinum svo ég held að það sé nokkuð ljóst,“ svaraði Vilhjálmur, sem síðar sagði í samtali við Morgunblaðið ástæðuna vera einfalda.

„Ég brenn fyrir að hægt sé að rétta hag þeirra sem höllustum fæti standa. Þessar tillögur voru langt undir þeim væntingum. [...] Ég gat ekki setið þarna inni lengur.“ Spurður um framhaldið sagði hann stöðuna vera alvarlega.

„Hafi staðan verið alvarleg, þá bara drottinn minn dýri, þá er hún alvarleg núna. Það er þannig,“ segir Vilhjálmur í samtali við Vísi, en spurður hvað hefði gerst sagði hann: „Ég held að réttara væri að snúa spurningunni við. Hvað gerðist ekki? Getur ekki verið að það hafi ekkert gerst? Getur ekki verið að það hafi ekkert gerst.“

Vilhjálmur sagði það blasa við hveði hefði gerst en að öðru leiti hafi hann verið svo heitur eftir fundinn að hann ætti erfitt með að tjá sig um málið. Nú sitja hins vegar á fundi með stjórnvöldum þau Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.