Fimm kínverskir áhrifavaldar munu verja morgundeginum í að selja vörur frá íslenska fyrirtækinu Bioeffect til hundruð milljónir samlanda þeirra. Þau eru stödd á Íslandi í tilefni íslensk-kínverskrar streymisviku sem fer nú fram í fyrsta skipti.

Streymisvikan svokallaða tengist stórri verslunarhátíð sem er haldin árlega í Kína en þetta mun vera í annað sinn sem hún er haldin utan strendur Kína. Kynningarfundur fór meðal annars fram í gær á Hilton Reykjavik Nordica þar sem fulltrúar kínverska sendiráðsins og Íslandsstofu héldu erindi.

Tilgangur vikunnar er að kynna á öllum helstu markaðstorgum í Kína ákveðnar vörur og vörumerki til að auka vitund og eftirspurn kínverskra neytenda eftir gæða vörum. Íslenska húðvörufyrirtækið Bioeffect er eitt þeirra fyrirtækja sem kínverskir neytendur munu fá að kynnast í þessari viku.

Kínverskir áhrifavaldar munu auglýsa vörur Bioeffect á samfélagsmiðlinum Douyin en Douyin er kínverska útgáfan af TikTok. Miðillinn er einnig í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance og samkvæmt kínverska greiningarfyrirtækinu MoonFox eru notendur Douyin 730 milljónir talsins.

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Bioeffect, segir það mikinn heiður fyrir bæði fyrirtækið og Ísland að hafa orðið fyrir valinu. Ísland sé annað landið á eftir Japan sem Douyin velur til að vera heiðursgestur þessarar streymisviku.

Dorrit Moussaieff og áhrifavaldur frá Kína.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þetta eru fimm áhrifavaldar og hvert þeirra er í raun eigið fyrirtæki. Þau eru með sína eigin búð sem er bara eins og sjónvarpsmarkaður nútímans en á miklu stærri skala en maður gæti ímyndað sér. Þau eru öll líka með aðstoðarfólk þannig þetta er rúmlega 40 manna hópur sem við erum að taka á móti.“

Jude Zhu, kynningar- og rekstrarstjóri Douyin, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikil spenna sé fyrir vörum Bioeffect í Kína þar sem húðvörur eru mjög vinsælar og eru taldar vinna gegn öldrun. Hún segir að sölumarkmið vikunnar hafi verið að selja Bioeffect vörur fyrir 12 milljón kínversk yuan, eða tæpar 240 milljónir króna.

„Ég hugsa samt að þeirri tölu verði náð bara strax á morgun,“ segir Jude.

Liv bætir við að fríverslunarsamningurinn sem Ísland undirritaði við Kína árið 2013 hafi hjálpað mikið og að þessi viðburður sé mjög góð landkynning. Hópurinn hafi til að mynda heimsótt Gullfoss og Geysi í dag og eru að gefa sér mikinn tíma í að kynna sér landið.

Jude Zhu frá Douyin E-Comerce CBEC.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Einn áhrifavaldur í þessum hóp sem selur mest er með sölustreymi í beinni útsendingu í þrjá klukkutíma á dag 5 til 6 daga vikunnar. Hún er með yfir 70 manns í vinnu og hafa mörg þeirra það verkefni að finna hvaða vara verður næst fyrir valinu. Hún selur svo vörur fyrir nokkur hundruð milljónir á mánuði alveg upp í milljarð eftir því hvaða vörur hún er með. Þannig einn svona áhrifavaldur getur selt meira á dag en Kringlan.“

Árið 2019 var Kína rúmlega 30% af allri sölu Bioeffect en þegar heimsfaraldur skall á hafði það mikil áhrif á sölur fyrirtækisins. Liv segir streymisvikuna því vera mjög mikilvæg fjárfesting til að byggja upp þann markað á ný.

„Við fengum hins vegar ekki að skipuleggja þetta með löngum fyrirvara. Maður myndi halda að Kínverjarnir myndu halda svona viðburð með árs fyrirvara, en það eru bara nokkrar vikur síðan við fengum að vita af þessu. Þannig við þurftum að skala upp framleiðsluna á mjög stuttum tíma. Við búumst við að selja gríðarlegt magn á morgun og að við munum fá fleiri nýja og trygga viðskiptavini í framhaldinu,“ segir Liv.

Heimsókn í gróðurhús BIOEFFECT í Grindavík.
© Aðsend mynd (AÐSEND)