Í ársbyrjun 2019 var stuðningur við bókaútgáfu á íslensku sem heimilar endurgreiðslu 25% beins útgáfukostnaðar festur í lög. Stuðningurinn nær til prentunar, hönnunar, auglýsinga, höfundarlauna og ritstjórnar útgefinna bóka og nemur rúmlega 361 milljón króna það sem af er ári.

Undanfarið hefur borið á ákveðnum gagnrýnisröddum þess efnis að kerfið skapi annarlega hvata. Þannig geti bókaútgefendur séð sér hag í því að gefa út fleiri bækur heldur en eftirspurn markaðarins stendur undir, og slíkt gæti bitnað á rithöfundum í lægri sölutölum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, vísar þeirri gagnrýni á bug og bendir sérstaklega á barna- og ungmennabókmenntir í þeim efnum.

„Börn þurfa fjölbreytt lesefni á sínu móðurmáli til að geta örvað málskilning og lesskilning - og til að geta staðið sig vel í lífinu. Þessi gagnrýni lýsir ákveðnu skilningsleysi á mikilvægi lesturs fyrir börn, en á einu ári var 47% aukning í útgáfu barna- og ungmennabóka. Það er auðvitað stóri sigurinn," segir Lilja.

Hún segir jafnframt að þrátt fyrir 25% endurgreiðslu fylgi bókaútgáfu enn umtalsverður kostnaður og því fari útgáfa enn fram á viðskiptalegum forsendum.

„Enginn gefur út bók til að tapa á því. Ef við værum að niðurgreiða 50-75% útgáfunnar ætti þessi gagnrýni rétt á sér, en af því þetta eru 25% þarf einhver annar að taka 75% kostnaðar á sig. Þetta stenst enga skoðun."

Höfundar njóta góðs af

Pétur Már Ólafsson, útgefandi Bjarts & Veraldar, vísar jafnframt þeirri gagnrýni á bug að endurgreiðslukerfið þóknist útgefendum á kostnað rithöfunda, sérstaklega í kjölfar viðauka við rammasamning Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands, þar sem höfundur fær nú 45% af endurgreiðslu ríkisins vegna höfundarlauna í sinn hlut.
Höfundarlaun haldast almennt í hendur við fjölda seldra bóka og reiknast sem hlutfall af heildsöluverði hverrar bókar.

„Þetta hefur mikil áhrif á laun rithöfundar þar sem höfundarlaunaprósentan hækkar í raun um tæp 10%. Hún fer úr 23% af heildsöluverði upp í rúmlega 25% og höfundar njóta því sannarlega góðs af endurgreiðslunni," segir Pétur Már.

Hann tekur jafnframt undir með Lilju að markaðslögmálin ráði áfram för þrátt fyrir endurgreiðsluna, enda þurfi útgáfan eftir sem áður að standa undir kostnaði.

Aðrir viðmælendur Viðskiptablaðsins bentu þó á ákveðna annmarka á kerfinu. Í ljósi þess að höfundarlaun eru beintengd fjölda seldra eintaka, rennur til að mynda mestur stuðningur til þeirra sem selja flestar bækur. Það stingi þannig í stúf við önnur styrkjakerfi þar sem markmiðið er að styðja við þá sem bera minnst úr býtum. Þá sé eftirspurn eftir bókum almennt nokkuð föst stærð sem leiði af sér að fleiri útgefnir titlar þýði gjarnan færri seldar bækur fyrir marga höfunda og þar af leiðandi lægri tekjur. Þannig hafi „miðjuflokkur" seldra bóka, sem telur um 2.000- 3.000 seld eintök, nærri þurrkast út á meðan metsölubækur seljast í meiri mæli. Ljóst er hins vegar að fjölgun í útgáfu raf- og hljóðbóka hefur að einhverju leyti búið til nýjan lesendahóp og þannig aukið við tekjumöguleika rithöfunda.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .