Hluta­bréfa­verð Kviku Banka hefur hækkað um 3% í um 350 milljón króna við­skiptum í dag og stendur gengið í 16,4 krónum. Hluta­bréf bankans hafa nú hækkað um rúm 23% síðast­liðinn mánuð en gengið stóð í 13,3 krónum í lok nóvember.

Velta með bréf bankans hefur aukist til muna á síðustu vikum en tíu af stærstu þrjá­tíu við­skipta­dögum ársins miðað við veltu voru í desember.

Velta með bréf bankans frá 22. nóvember til 21. desember nam 12,1 milljarði króna. Veltan milli 22. októ­ber til 21. nóvember nam ekki nema 3,3 milljörðum króna.

Kvika banki til­kynnti þann 17. nóvember síðast­liðinn að bankinn hefði hafið sölu­ferli á dóttur­fé­lagi sínu TM tryggingum.

Kvika hyggst selja allt úti­standandi hluta­fé í TM eða selja hlut í fé­laginu til kjöl­festu­fjár­festa sem kann að leiða til skráningar.

Gildi líf­eyris­sjóður keypti 29. nóvember 30 milljónir hluta, eða um 0,6% eignar­hlut, í Kviku banka fyrir 420 milljónir króna.

Gildi, sem er fimmti stærsti hlut­hafi Kviku, á nú 5,43% hlut í Kviku.

Gengi hluta­bréfa Kviku í við­skiptunum var 14,0 krónur á hlut. Markaðs­virði hlutanna sem keyptir voru í lok nóvember er rúm­lega 492 milljón króna virði í dag eftir gengis­hækkanir Kviku í desember.

Eignar­hlutur Gildis er um 4,25 milljarða króna virði miðað við gengi dagsins.