*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 25. október 2020 12:03

Fagkaup eykur hagnað sinn um 150%

AKSO, sem rekur Fagkaup, hagnaðist um 657 milljónir á síðasta ári. Eigið fé jókst um nálega þriðjung á árinu.

Ritstjórn
Bogi Þór Siguroddsson er framkvæmdastjóri, og helmingseigandi á móti konu sinni Lindu Björk Ólafsdóttur, í félaginu AKSO sem rekur Fagkaup, sem aftur heldur utan um fjölda þekktra vörumerkja.
Eyþór Árnason

Hagnaður AKSO, sem heldur utan um rekstur Fagkaupa sem eru með vörumerkin Áltak, Johan Rönning, Sindra, S.Guðjónsson og Vatn & veitur jók hagnað sinn um nærri 150% á síðasta ári, úr 265 milljónum króna í 657 milljónir króna.

Tekjur félagsins jukust um 11,5% á árinu, úr 11,5 milljörðum í tæplega 11,9 milljarða, meðan rekstrargjöldin jukust um 10,1%, úr tæplega 10,4 milljörðum í ríflega 11,4 milljarða. Þar af stóðu laun og launatengd útgjöld nánast í stað í 2 milljörðum, en stöðugildum fækkaði á árinu um eitt að meðaltali niður í 165.

Athygli vekur að í ársreikningi félagsins segir að heildarlaun og þóknanir stjórnenda samstæðunnar á árinu 2019 hafi numið X milljónum króna, en árið 2018 voru þau 159 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst um 29,4% á árinu, úr tæplega 2,1 milljarði króna í tæplega 2,7 milljarða króna, meðan skuldirnar drógust saman um 4,1%, úr tæplega 4,5 milljörðum í tæplega 4,3 milljarða.

Þar með jukust eignir félagsins um 6,5%, úr 6,5 milljörðum króna í tæplega 7 milljarða, meðan eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 31,6% í 38,4%. Bogi Þór Siguroddsson er framkvæmdastjóri AKSO og helmingseigandi á móti konu sinni Lindu Björk Ólafsdóttur.