Nýjum fullbúnum íbúðum fjölgaði um 3.079 í fyrra samkvæmt HMS en samkvæmt síðustu íbúðatalningu var búist við 2.828 fullbúnum íbúðum fyrir 2023. Íbúðirnar voru því fleiri en HMS hafði spáð fyrir en voru þó ekki nógu margar til að svala íbúðaþörf á landinu.

Samkvæmt miðspá íbúðaþarfagreiningar sem HMS birti í október síðastliðnum þyrfti íbúðum að fjölga um tæplega 20.000 á næstu fimm árum, en það jafngildir tæplega 4.000 nýjum íbúðum á hverju ári.

„Líkt og HMS hefur áður greint frá hækkuðu stjórnvöld hámarksverð íbúða og tekjuviðmið umsækjenda fyrir hlutdeildarlán í júní í fyrra, auk þess sem úthlutunartímabilum á lánunum fjölgaði. Í kjölfar þessara breytinga jókst aðsókn í hlutdeildarlánin, sem eru til kaupa á nýjum íbúðum, en HMS telur að sú aukning hafi skilað sér í hraðari innkomu nýrra íbúða á íbúðamarkað á síðasta ársfjórðungi en stofnunin gerði ráð fyrir í síðustu íbúðatalningunni sinni.“

Í byrjun síðasta árs voru vísbendingar um að íbúðauppbygging væri að dragast saman, en könnun SI á meðal félagsmanna sinna frá vormánuðum 2023 sýndi 65% samdrátt í uppbyggingu nýrra íbúða. Íbúðatalning HMS sýndi svipaðan samdrátt, en samkvæmt henni var umfang nýrra íbúðaframkvæmda 70 prósentum minna en á sama tíma árið 2022.

„Yfirvofandi samdráttur á byggingarmarkaði bendir til þess að framboð nýrra íbúða á húsnæðismarkaði muni dragast enn frekar saman á næstu árum og ekki vera nálægt því að uppfylla íbúðaþörf samkvæmt þarfagreiningu HMS,“ segir jafnframt í greiningu.