Pítsu- og kraftbjórastaðurinn NEÓ opnaði formlega á dögunum í Hafnartorg Gallery við Geirsgötu í Reykjavík (áður kallað Austurhöfn). Þetta kemur fram í tilkynningu. Hafnartorgi Gallery er ætlað að vera drifkraftur fjölbreytts mannlífs en um er að ræða nýtt miðborgarrými með fjölda nýrra veitingastaða ásamt verslunum á vegum North Face, 66°North og Casa.

NEÓ Pizza er afsprengi Flatey Pizza og rekið undir sama hatti. Staðurinn er sá fyrsti hér á landi sem leggur áherslu á pítsur í hinum upprunlega New York stíl.

„Við höfum haft mikinn áhuga á þessari tegund pítsugerðar um langa hríð en við sækjum innblástur í fornfræga staði á austurströnd Bandaríkjanna. Við erum ekki að tala um þessar týpísku New York sneiðar, heldur gamaldags pítsur undir jöfnum áhrifum frá Napólí og New York” segir Haukur Már Gestsson einn eigenda Flatey.

„Þessi pítsuhefð er í raun afsprengi tilrauna ítalskra frumbyggja New York borgar til að gera pítsu eins og í Napólí en með þeim hráefnum og tækjum sem þeim stóð til boða á Manhattan fyrir 100 árum. Elsti pítsustaður New York borgar, Lombardis, var stofnaður árið 1905 og stendur enn fyrir sínu” segir Haukur.

Að sögn aðstandenda NEÓ er niðurstaðan hæfilega sveittar og stökkar pítsur með kraftmiklum áleggjum en staðurinn gerir allt deig frá grunni, lagar sósu úr hágæða tómötum og notast við blöndu af ferskum mozzarella og hefbundnum osti. Samhliða er boðið upp á myndarlegt úrval innlendra og erlendra kraftbjóra.

Haukur Már Gestsson einn eigenda Flatey segir pizzurnar hjá NEÓ vera undir jöfnum áhrifum frá Napólí og New York.
© Aðsend mynd (AÐSEND)