Forstjóri HSBC bankasamstæðunnar, Noel Quinn, hefur ákveðið að láta af störfum eftir að hafa gegnt stöðunni í fimm ár. Hann mun starfa áfram sem forstjóri þar til stjórn breska bankans hefur fundið eftirmann hans.

„Eftir fimm krefjandi ár, þá er núna rétti tíminn fyrir mig til að ná betra jafnvægi milli einkalífs og vinnu,“ sagði Quinn sem hefur starfað hjá HSBC í 37 ár.

Það hefur lengi verið venja hjá HSBC að velja starfsmann innan samstæðunnar til að gegna hlutverki forstjóra. Stjórn bankans segist hafa hafið leit að nýjum forstjóra og muni íhuga kandídata innan og utan samstæðunnar.

Mark Tucker, stjórnarformaður HSBC, tjáði fjölmiðlum að stjórnin geri ráð fyrir að ráða nýjan forstjóra á seinni helmingi ársins.

Í umfjöllun WSJ segir að Georges Elhedery, sem tók við sem fjármálastjóri HSBC í ársbyrjun 2020 eftir tæplega 20 ára starf hjá samstæðunni, sé talinn líklegur eftirmaður Quinn.