Ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að ekki eigi að nýta orku innanlands til stórfells útflunings á raforku hafa vakið nokkra athygli. Á flokksráðsfundi Vinstri græna um helgina sagði Katrín að frumskyldu vera við íslenskan almenning í nútíð og framtíð og ná þurfi orkuskiptum í öllum geirum að því er fram kemur á vef RÚV .

Raunhæft mat þurfi á orkuþörf til þess og sú vinna standi yfir í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Katrín sagði að þegar orkuþörfin lægi fyrir þyrfti að marka pólitíska stefnu.

„En við eigum að tryggja það að okkar orka nýtist fyrst og fremst til að bæta lífskjör okkar. Það er okkar frumskylda. Þannig að þegar rætt er um stórfelldan útflutning á innlendri orku til erlendra aðila þá tel ég að við þurfum að draga línu í sandinn og marka þessa skýru forgangsröðun í okkar pólitík," sagði Katrín á flokksráðsfundinum um helgina þar sem hún flutti erindi í gegnum fjarfundarbúnað eftir að hafa greinst með Covid-19.

Samorka áætlaði nýlega að um 1.200 MW af raforku þyrfti ef skipta ætti út öllu jarðefnaeldsneyti í samgöngum innanlands, í bílum, skipum og flugvélum en í dag er uppsett afl raforkukerfisins hér á landi um 3.100 MW.

Ætti Norðmenn og Sádar ekki að flytja út olíu?

Jón Steinsson, prófessor í hagfræði við Berkeley háskóla, ritar færslu á Facebook í gamansömum tón, þar sem hann spyr hvort Katrín telji það sama ætti að eiga við um íslenskar sjávarafurðir og veltir fyrir sér hvort Norðmenn og Sádar hafi íhugað sömu leið með olíuauðlindir sínar. „Það er hægt að nýta hann innanlands (t.d. bræða niður í olíu). Noregur og Saudí Arabía ættu líka að taka upp þessa stefnu með olíuna. Ómögulegt að vera að flytja hluti út í stórum stíl."

Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, bendir um leið á þá staðreynd að þegar séu um 80% af raforkuframleiðslu Íslands flutt út óbeint í gegnum framleiðslu á áli og kísiljárni hér á landi sem nýtt er erlendis.

Rafeldsneyti til útflutnings og sæstrengur út af borðinu?

Möguleg lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu hefur verið til umræðu hér á landi í nokkra áratugi.

Þá hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins talað fyrir því að skoða fýsileika útflutnings rafeldsneytis samhliða því að raforkuframleiðsla innanlands verði aukin til að standa undir orkuskiptum í samgöngum. Þar á meðal eru Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Slíkt gæti bæði styrkt íslenskt efnahagslíf og um leið verið mikilvægt framlag Íslands í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þegar er búið að skrifa undir viljayfirlýsingar um að kanna hagkvæmni rafeldsneytisframleiðslu á nokkrum stöðum hér á landi.