Umboðsmaður Alþings skilaði í dag áliti um tímabundið hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í sumar. Tilefnið var kvörtun Hvals hf. en niðurstaða umboðsmanns er að útgáfa reglugerðarinnar hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar auk þess sem hún hafi ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Skömmu eftir að álitið birtist kom ráðherrann sínum sjónarmiðum á framfæri en hún sagði það hafa verið sitt mat á þeim tíma sem reglugerðin var sett að hún hafi ekki annan kost en að bregðast strax við og fresta upphafi veiðitímabilsins.

„Velferð dýranna var í öndvegi í minni ákvarðanatöku, að vinna að því markmiði að þessi dýr upplifðu ekki óbærilegan dauðdaga við veiðar,“ segir Svandís í færslu á Facebook síðu sinni en hún hélt því fram að tímaskekkja í lögum um hvalveiðar hafi verið ástæðan fyrir því að umboðsmaður hafi komist að sinni niðurstöðu.

„Ég tek þessa niðurstöðu umboðsmanns alvarlega og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

Ekki grundvöllur til að banna hvalveiðar

Í ítarlegu áliti umboðsmanns eru málsatvik rakin en reglugerðin kom í kjölfar þess að Matvælastofnun birti eftirlitsskýrslu um velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022 og fagráð um velferð dýra skilaði að beiðni Matvælastofnunar áliti um málið 16. júní 2023.

Kom fram í minnisblaði sem birtist 20. júní, sama dag og greinargerðin birtist, að ráðuneytið teldi að unnt væri að ná þeim markmiðum sem að væri stefnt, án þess að kveðið væri á um afdráttarlaust bann við veiðunum, með því að fresta upphafi veiðanna um sinn. Var reglugerðin byggð á sjónarmiðum um velferð dýra og byggði á lögum nr. 26/1949 og lögum nr. 55/2013 um velferð dýra.

Í fjórðu grein laga nr. 26/1949 um hvalveiðar, sem ráðherra byggði reglugerð sína meðal annars á, kemur fram að ráðuneytið geti með reglugerð:

Umboðsmaður telur ekki útilokað að líta til sjónarmiða um velferð dýra við framkvæmd á lögunum, þar á meðal útgáfu reglugerðar samkvæmt fjórðu grein. Alþjóðahvalveiðiráðið hafi hins vegar aðeins nýtt heimildir sínar til breytinga á fylgiskjali samningsins með tvennum hætti að því er snýr að velferð dýra, annars vegar um gagnaöflun og hins vegar með banni á mjög afmörkuðum veiðibúnaði.

„Verður sú ályktun því ekki dregin af þessum reglum að veiðar á langreyðum beri að banna á ákveðnum tímum eða mögulega fyrir fullt og allt á grundvelli dýraverndunarsjónarmiða. Að þessu virtu get ég ekki séð að reglugerð ráðherra nr. 642/2023, sem í reynd fól í sér tímabundið bann við veiðum á langreyðum, hafi getað helgast af því markmiði að með einhverjum hætti væri verið að innleiða alþjóðleg viðmið um mannúðlegar veiðar,“ segir í áliti umboðsmanns.

Ekki leitast við að samþætta markmið beggja laga

Hvað ákvæði laga nr. 55/2013 sem snýr að veiðum á villtum dýrum telur umboðsmaður að ráðherra hafi ekki heimild til að banna veiðar á villtum spendýrum alfarið eða tímabundið. Ráðherra verði þá að samþætta markmið beggja laga við útgáfu stjórnvaldsfyrirmæla en við setningu reglugerðarinnar hafi ráðherra ekki tekið tillit til markmiða hvalveiðilaga eða leitast við að samþætta þau sjónarmiðum um velferð dýra.

Þar fyrir utan verði að horfa til þess að reglugerðin hafi falið fyrirsjáanlega í sér fyrirvaralítið íþyngjandi inngrip í atvinnuréttindi og atvinnufrelsi Hvals hf. Félagið hafi fengið leyfi út árið 2023 og hafði því ríkari ástæður en ella til að treysta því að það fengi að meginstefnu áfram að stunda þessa atvinnustarfsemi.

Umboðsmaður tekur fram að hann fái ekki annað ráðið en að reglugerðin hafi haft velferð dýra að markmiði sínu. Það hafi þó ekki tekið nægilega tillit til stjórnskipulega verndaða hagsmuni Hvals eða tekið tillit til nýtingarsjónarmiða laga nr. 26/1949. Til að mynda hafi reglugerðin kveðið á um bann við hvalveiðum yfir þann tíma ársins sem aðstæður til veiða eru almennt taldar ákjósanlegastar.

Fyrirvaralaus og verulega íþyngjandi ráðstöfun

Hvað meðalhóf varðar hélt ráðuneytið því fram að því hafi verið beitt þar sem ekki hafi verið hægt að bregðast við með vægari hætti en að fresta veiðum fram til 1. september. Þá hafi ráðuneytið ekki þurft að leita til Hvals áður en reglugerðin var sett þar sem ekki væri um að ræða stjórnvaldsákvörðun.

Umboðsmaður tekur það sérstaklega fram að það hafi legið fyrir þegar reglugerðin var sett að félagið væri í þann mund að hefja veiðar. Ekki verði séð að ráðuneytið hafi átt samskipti við Hval hf. eftir að ábendingar Matvælastofnunar komu fram þann 8. maí 2023. Þá hafi ekkert atvik komið upp sem höfðu mögulega heimilað afturköllun leyfis til hvalveiða og ekki verði fallist á að álit fagráðs um velferð dýra hefði getað orðið viðhlítandi grundvöllur fyrir því að líta sem svo á að fyrirhugaðrar veiðar Hvals væru andstæðar lagareglum um dýravelferð.

„Í ljósi hins skamma aðdraganda útgáfu reglugerðar nr. 642/2023 og skorts á miðlun upplýsinga til Hvals hf. get ég ekki litið öðruvísi á en að félagið hafi fengið ófullnægjandi færi á að mæta þeirri röskun hagsmuna þess sem fyrirhugað tímabundið veiðibann var til þess fallið að valda. Við úrlausn málsins tel ég því að leggja verði til grundvallar að útgáfa reglugerðarinnar hafi falið í sér fyrirvaralausa og verulega íþyngjandi ráðstöfun m.t.t. stöðu og hagsmuna Hvals hf.“

Stjórnvöldum beri við meðferð valdheimilda sinna að virða almenna meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra sem í hlut eiga.

„Í ljósi alls þess sem að framan greinir, einkum réttmætra væntinga Hvals hf., tel ég að við þær aðstæður sem uppi voru við útgáfu reglugerðarinnar 20. júní 2023 verði að leggja til grundvallar strangar kröfur til þess að gætt væri meðalhófs m.t.t. stöðu og hagsmuna félagsins. Að öllu virtu er það álit mitt að útgáfa reglugerðarinnar hafi ekki samrýmst þessum kröfum og þ.a.l. ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.“

Beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðherra

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis var því að útgáfa reglugerðarinnar hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í fjórðu grein laga um hvalveiðar auk þess sem hún hafi ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

„Þar sem það ástand sem leiddi af útgáfu reglugerðarinnar er liðið undir lok tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til ráðherra um úrbætur þar að lútandi. Þá tek ég fram að með niðurstöðu minni hef ég enga afstöðu tekið til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga hinna ólögmætu stjórnvaldsfyrirmæla. Hef ég af þeim sökum ekki heldur forsendur til að beina tilmælum til ráðherra um að leita leiða til að rétta hlut Hvals hf. Yrði það að vera verkefni dómstóla að leysa úr slíkum álitaefnum ef málið yrði lagt í þann farveg. Ég beini því þó til ráðherra að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.“

Álitið í heild má nálgast hér.