Íslenska fyrirtækið ORF Líftækni og ástralska nýsköpunarfyrirtækið Vow buðu í gær upp á smökkun vistkjöts við höfuðstöðvar ORF Líftækni við Víkurhvarf. Var þetta jafnframt í fyrsta sinn sem smökkun á vistkjöti fer fram í Evrópu.

Vistkjöt er kjöt sem er ræktað úr stofnfrumum dýra en ástralska fyrirtækið Vow er einn af brautryðjendum í þeirri framleiðslu. Lykilþáttur í framleiðsluferli Vow eru vaxtarþættir frá ORF Líftækni.

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF Líftækni, opnaði viðburðinn og kynnti meðal annars George Peppou, forstjóra og meðstofnanda Vow. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók einnig til máls og fékk þar að auki að smakka vistkjötið.

Vistkjöt fyrirtækisins hefur þegar verið skilgreint sem örugg matvæli í Ástralíu en Vow hefur þó ekki enn sótt um markaðsleyfi í Evrópu.

Forsætisráðherra fékk að gæða sér á vistvænu lifra paté.
© Samsett (SAMSETT)

Kjötneysla á heimsvísu hefur stóraukist undanfarna áratugi en árlega neytir mannkynið um 350 milljón tonna af kjöti á hverju ári. Að sögn Vow er framleiðsla á vistkjöti sjálfbær leið til að auka framleiðslu án neikvæðra umhverfisáhrifa og styður undir dýravelferð og fæðuöryggi.

„Þegar þú ert bóndi þá ert þú líka upp á náð og miskunn veðursins. Það getur komið þurrkur eða sjúkdómar og svo eru markaðsbreytingar sem bæta ofan á óvissuna. Með framleiðslu á vistkjöti þá þurfum við bara smá sykur, salt, amínósýrur og önnur efni en svo lengi sem við höfum þau þá erum við í góðum málum,“ segir George.

Hann segir að framleiðslan sé bæði stöðug og fyrirsjáanleg. Ferlið veitir ákveðið jafnvægi í annars vegar mjög sveiflukenndu umhverfi.

„Stríðið í Úkraínu er gott dæmi um það hversu viðkvæmt alþjóðlega matvælakerfið okkar er. Kerfinu er í raun bara haldið saman með bandi og tyggjói og ef eitthvað eitt breytist þá getur það haft áhrif á fleiri hundruð þúsund manns.“