Fleiri en 150 fyrrum bandarískir meðeigendur Ernst & Young (EY), sem hafa sest í helgan stein, hafa skrifað bréf til æðstu stjórnenda þar sem þeir mótmæla fyrirhugaðri uppstokkun á endurskoðunar- og ráðgjafarhluta alþjóðlega fyrirtækisins. Financial Times greinir frá.

Í þriggja blaðsíðna minnisblaði segja þeir að áformin eins og þau leggja sig í dag muni veikja báða hluta fyrirtækisins. Fyrrum bandarísku meðeigendurnir spyrja einnig hvort Carmine Di Sibio, forstjóri EY á alþjóðavísu, gæti hagsmuna endurskoðunarstarfseminnar með fullnægjandi hætti.

Í september síðastliðnum samþykktu stjórnendur fimmtán stærstu aðildarfélögum að skipta fyrirtækinu upp. Fyrirhugað er að ráðgjafarhluti félagsins verði seldur eða skráður á markað.

Hinir ríflega 13 þúsund meðeigendur EY munu kjósa innan hvers lands um áformin. Í umfjöllun FT segir að fjarað hafi út um vonir um að atkvæðagreiðsla í Bandaríkjunum og Bretlandi geti farið fram fyrir lok yfirstandandi árs. Kosningin fer ekki fram fyrr en endanleg útfærslu liggur fyrir.

Þó fyrrum meðeigendur hafi ekki atkvæðisrétt þá eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þá. EY í Bandaríkjunum þarf að deila 7,5 milljarða dala lífeyrisskuldbindum sínum, eða sem nemur 1.080 milljörðum króna, niður á einingarnar tvær og ljóst er að meirihlutinn mun sitja eftir hjá endurskoðunarhlutanum.

Í bréfinu segja þeir að hagnaður endurskoðunarhlutans muni dragast verulega saman í kjölfar uppstokkunarinnar. Lífeyrisskuldbindingarnar gætu mögulega reynst endurskoðunarhlutanum erfiðar.

„Við sjáum enga ástæðu fyrir því af hverju lífeyrisskuldbindingar ættu ekki að vera fjármagnaðar að fullu,“ skrifa þeir.