Hluta­bréfa­verð Deutsche Bank hefur lækkað um 6% í fyrstu við­skiptum í Þýska­landi en bankinn greindi frá mögu­legum kostnaði vegna deilna sinna við hluta­hafa Post­bank um helgina.

Deutsche bank keypti Post­bank í nokkrum skrefum sem hófust fyrir meira en ára­tug síðan en hlut­hafar Post­bank vilja meina að þýski bankinn hafi beðið of lengi með að leggja fram skuld­bindandi til­boð í hluta­fé þeirra árið 2010 og á endanum fengið lægra verð í staðinn.

Dóm­stóll í Köln á­kvað að taka málið fyrir á föstu­daginn og sagði dómari kröfur hlut­hafa Post­bank væru gildar en kröfur þeirra hljóða upp á 1,3 milljarða evra sem sam­svarar um 210 milljörðum ís­lenskra króna.

Fari svo að Deutsche þurfi að greiða slíka upp­hæð auk vaxta til hlut­hafa Post­bank mun það þurrka út allan hagnað bankans á fyrsta árs­fjórðungi.

Gengi Deutsche hefur hækkað veru­lega í byrjun árs og lofaði bankinn að launa hlut­höfum dug­lega á árinu en það virðist nú vera komið í hættu.

The Wall Street Journal greinir frá.

Deutsche Postbank.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)