Hlutabréfaverð Icelandair stóð í 2,0 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar eftir 3,4% hækkun í 250 milljóna veltu með bréf félagsins í dag. Gengi flugfélagsins hefur nú hækkað um þriðjung frá því að það fór niður í 1,5 krónur á hlut þann 8. mars síðastliðinn eftir að hafa lækkað talsvert í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu. Gengi Play hækkaði einnig um 2,5% í dag og stendur nú í 25 krónum.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær kom fram að flugframboð í mars hafi verið um 64% af framboði sama mánaðar ársins 2019. Þá hafi sætanýting í síðasta mánuði numið 75%. Play birti einnig flutningatölur í dag en flugfélagið flutti 23,7 þúsund farþega í síðasta mánuði og sætanýting var 67%.

Það var hins vegar SKEL fjárfestingafélag sem hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 7% í 933 milljóna veltu. Félagið tilkynnti í morgun um að Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, sem hefur gegnt stöðu aðstoðarbankastjóra Arion, muni taka við af Ólafi Þór Jóhannessyni sem forstjóri og að Magnús Ingi Einarsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku, hafi verið ráðinn fjármálastjóri. Gengi SKEL stendur nú í 18,3 krónum á hlut eftir 31% hækkun í ár og hefur aldrei verið hærra.

Sjá einnig: Ásgeir ráðinn forstjóri SKEL

Mesta veltan í Kauphöllinni var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 0,8% í 1,2 milljarða viðskiptum. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 128 krónum á hlut. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að hann væri hlynntur að afhenda almenningi hluta af eftirstæðum 42,5% hlut ríkissjóðs í bankanum.