Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason hefur verið ráðinn sem forstjóri SKEL fjárfestingafélags og mun því láta af störfum sem aðstoðarbankastjóri Arion banka á næstu dögum.  Magnús Ingi Einarsson, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra bankasviðs Kviku Banka, hefur verið ráðinn fjármálastjóri SKEL.

Ólafur Þór Jóhannesson lætur af störfum sem forstjóri en hann hefur starfað hjá SKEL, þar áður Skeljungi, frá árinu 2019.

Miklar breytingar hjá Arion

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, mun nú jafnframt gegna starfi aðstoðarbankastjóra hjá Arion „og í því hlutverki meðal annars leiða sókn Arion banka og Varðar á tryggingamarkaði“.

Auk Ásgeirs þá hefur Margrét Sveinsdóttir einnig ákveðið að láta af störfum hjá Arion en hún hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar og síðar markaða frá árinu 2009. Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.

Þá hefur Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs og hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn bankans.

Ólöf tekur við af Magnúsi Inga

Ólöf Jónsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs Kviku frá apríl 2021, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri bankasviðs. Ólöf hóf störf hjá Kviku árið 2017, fyrst sem forstöðumaður stefnumótunar og rekstrarstjórnunar og síðar sem forstöðumaður fjártækni. Í apríl 2020 tók hún við starfi framkvæmdastjóra Lykils fjármögnunar og gegndi hún því starfi fram að samruna Kviku, Lykils og TM í apríl 2021, þegar hún tók sæti í framkvæmdastjórn Kviku.

Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs bankans, en hún hefur gegnt starfi forstöðumanns fjármála- og rekstrarsviðs hjá Kviku eignastýringu frá ársbyrjun 2020. Anna Rut hefur starfað hjá samstæðu Kviku og forverum frá árinu 2007, m.a. sem forstöðumaður útlánaáhættu hjá Straumi fjárfestingarbanka hf. á árunum 2012 til 2015.

Auk þess mun Thomas Skov Jenssen sem gegnt hefur starfi forstöðumanns áhættustýringar Kviku taka sæti í framkvæmdastjórn bankans. Thomas hefur verið forstöðumaður áhættustýringar Kviku og áður MP banka frá árinu 2007.