Alþjóðlega bílasýningin í Peking lauk um helgina en sýningin í ár stóð yfir í 10 daga og laðaði til sín meira en 892 þúsund gesti. Af þeim voru 28.000 erlendir gestir en sýningin hefur stækkað töluvert frá því hún byrjaði fyrst árið 1990.

Á sýningunni voru 117 ný ökutæki frumsýnd, þar af 30 nýjar bílategundir frá alþjóðlegum fyrirtækjum, sem gefur til kynna hversu hratt bílamarkaðurinn í Kína fer stækkandi.

Í ár voru það NEV-bílar (e. Neighborhood Electric Vehicle) sem stálu senunni en þeir samsvöruðu rúmlega 80% af þeim 117 bílum sem voru frumsýndir. Í heildina voru 278 nýir NEV-bílar til sýnis sem er 74% aukning frá sýningunni í fyrra.

Cui Dongshu, framkvæmdastjóri fólksbílasamtakanna í Kína (CPCA), sagði í samtali við fréttamiðilinn Global Times að sýningin í ár hafi sýnt að NEV-bílar muni spila stóran þátt í framtíð kínverskrar bílaiðnaðar.

„Kínversk vörumerki hafa tekið umtalsverðum framförum í framleiðslu á rafhlöðum og nýsköpun og þróun rafknúinna ökutækja, sem hefur lagt traustan grunn að forskoti landsins þegar kemur að rafbílamarkaðnum,“ segir Cui.

Í mars voru alls 709 þúsund NEV-bílar seldir í Kína, sem er 29,5% aukning milli ára og samsvarar nú kínverski NEV-markaðurinn 62,5% af alþjóðlegri markaðshlutdeild.

Oliver Blume, forstjóri Porsche, var meðal annars á bílasýningunni til að ítreka áherslu fyrirtækisins á lúxusbílamarkaðnum í Kína. Á sýningunni afhjúpaði Porsche nýjasta Taycan 4-bílinn sem var sérsmíðaður fyrir kínverska markaðinn, ásamt Macan-jeppanum.

Samkvæmt tölum frá samtökum kínverskra bílaframleiðenda voru 6,6 milljónir bíla framleiddir í landinu frá janúar á þessu ári til mars. Þá voru einnig 6,72 milljónir bílar seldir á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er 10,6% aukning miðað við sama tíma í fyrra.