Hluta­bréfa­verð Marels lækkaði um rúm 4% í 860 milljón króna við­skiptum í Kaup­höllinni í dag. Marel birti upp­gjör eftir lokun markaða í gær en fyrir­tækið tapaði um 3,2 milljónum evra, sem nemur 478 milljónum króna, á fyrsta fjórðungi.

Til saman­burðar hagnaðist fé­lagið um 9,1 milljón evra, eða um 1,4 milljarða króna á sama tíma­bili í fyrra.

Árni Sigurðs­son, for­stjóri Marels, segir í af­komu­til­kynningu fé­lagsins að árið hafi farið ró­lega af stað í sam­ræmi við væntingar. Stjórn­endur fé­lagsins sjá þó skýr bata­merki í rekstrar­um­hverfi við­skipta­vina og já­kvæðari horfum byggt á lækkandi fóður­verði og hækkandi vöru­verði.

Fjöl­mörg önnur fé­lög á aðal­markaði lækkuðu einnig í við­skiptum dagsins en

Hluta­bréfa­verð Sýnar lækkaði einnig um 4% í við­skiptum dagsins en fjar­skipta- og fjöl­miðla­fyrir­tækið birti einnig árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Sýn tapaði 153 milljónum króna á fyrsta árs­fjórðungi saman­borið við 213 milljóna hagnað á sama tíma­bili í fyrra.

Tekjur Sýnar á fyrsta fjórðungi jukust um 1,3% milli ára og námu 5.934 milljónum króna. Fram­legð fé­lagsins dróst hins vegar saman um 10,5% milli ára og nam 1.852 milljónum.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech lækkaði einnig um tæp 4% í um hálfs milljarðs króna veltu. Dagslokagengi Alvotech var 1870 krónur.

Hluta­bréf í Ís­lands­banka lækkaði einnig um tæp 4% og var dagsloka­gengi bankans 97,2 krónur.

Ís­fé­lagið leiddi hækkanir á markaði er gengi fé­lagsins fór upp um 1,6% í um 50 milljón króna við­skiptum.

Hluta­bréfa­verð Nova hækkaði einnig um 1% í 180 milljón króna veltu en engin önnur fé­lög hækkuðu um meira en 1%.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 lækkaði um 2,12% og var heildar­velta á markaði 4,3 milljarðar.