Stjórnarfrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tímabundinn rekstrarstuðning til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna náttúruhamfaranna í Grindavíkurbæ var lagt fram á Alþingi nú síðdegis.

Samkvæmt frumvarpinu geta einstaklingar og lögaðilar sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavíkurbæ þegar rýma þurfti bæinn í nóvember síðastliðnum, og hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna atburðanna, fengið rekstrarstuðning í formi beinna styrkja úr ríkissjóði.

Um er að ræða mánaðarlegan stuðning á tímabilinu nóvember 2023 til og með apríl 2024. Kveðið er á um að styrkfjárhæð skuli jafngilda rekstrarkostnaði að frátöldum launakostnaði, þar sem launakostnaður fæst bættur með öðru úrræði stjórnvalda. Þá er styrkfjárhæðin bundin hámarki háð tekjufalli rekstraraðila og fjölda stöðugilda. Styrkurinn getur ekki orðið hærri en 600 þúsund á mánuði á hvert stöðugildi og aldrei hærri en sex milljónir á mánuði.

„Nýtast styrkirnir þannig best litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem er meginþorri fyrirtækja í Grindavíkurbæ samkvæmt gögnum Skattsins en 85% rekstraraðila þar hafa færri en 10 starfsmenn, eða 120 einyrkjar og 55 fyrirtæki með 340 starfsmenn í heild. Fjórtán fyrirtæki eru með 10–20 starfsmenn (alls 193 starfa hjá þeim fyrirtækjum), sex fyrirtæki með 20–30 starfsmenn (alls 138 manns) og þrjú fyrirtæki með 30–50 starfsmenn (alls 113 manns). Alls sjö fyrirtæki hafa fleiri en 50 starfsmenn og þar af eru þrjú langstærst (alls 1.626 manns). Þessu til viðbótar eru rekstraraðilar með skráðar höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi en starfsstöð í Grindavíkurbæ en ekki er vitað um fjölda þeirra,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Hvað varðar áhrif á ríkissjóð segir að ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjufall rekstraraðila í Grindavík á síðastliðnum mánuðum og að erfitt sé að áætla tekjufall í framtíðinni en það sama eigi við um rekstrarkostnað. Því sé áhrifamatið eðli máls samkvæmt háð nokkurri óvissu.

Miðað við efri mörk - að öll fyrirtæki skráð í Grindavík, auk þeirra sem eru með höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi, verði fyrir 100% tekjufalli, fjöldi launþega endurspegli öll stöðugildi og hámarkið sé bindandi - megi ætla að heildarfjárhæð tímabundins rekstrarstuðnings á sex mánaða tímabili úrræðisins yrði ekki hærri en 2.700 milljarðar króna. Sé aðeins horft til þeirra sem hafa þegar sótt um stuðning vegna greiðslu launa má áætla að heildarkostnaður gæti orðið um 1.600 milljónir.

Önnur úrræði standa til boða

Gripið hefur verið til ýmissa úrræða til að draga úr tjóni rekstraraðila vegna jarðhræringanna, til að mynda me sérstöku úrræði til að standa undir launagreiðslum. Ríkisstjórnin hefur einnig lögfest þrjár ívilnandi aðgerðir varðandi skattskil rekstraraðila:

  • Greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingagjalds. Heimild til handa launagreiðendum, sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls vegna náttúruhamfara í Grindavík, að óska eftir greiðslufresti til ríkisskattstjóra á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem falla mun í 5 gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024.
  • Lækkun eða niðurfelling fyrirframgreiðslu tekjuskatts. Heimild til handa ráðherra að ákvarða með reglugerð að á árinu 2024 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu gjaldenda upp í tekjuskatt sem lagður er á á því ári vegna tekna ársins 2023 eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í lögum um tekjuskatt.

Niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt. Heimild ríkisskattstjóra, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, til að fella niður álag á vangreiddan virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið.