Hækkun bankaskatts að nýju myndi að öðru óbreyttu leiða til aukins vaxtamunar og verri kjara fyrir heimili og fyrirtæki. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna og formanni fjárlaganefndar.

Bjarkey lagði fram fyrirspurn í lok febrúar, skömmu eftir að viðskiptabankarnir þrír skiluðu ársuppgjörum, um hvort það komi til álita að hækka bankaskattinn „í ljósi þess mikla hagnaðar sem íslensku bankarnir skila og til að bregðast við háu vaxtastigi bankanna ásamt auknum mun á innláns- og útlánsvöxtum“.

Bjarni svarar spurningunni ekki beint en leggur fram nokkur rök gegn hækkun bankaskattsins og bendir jafnframt á að arðsemi bankanna undanfarin ár sé ekki óeðlilega mikil miðað við arðsemismarkmiðum ríkisins í þeim tilvikum þar sem ríkið hefur átt meirihluta í viðkomandi banka.

„Þá er ástæða til að árétta að jafnvel eftir lækkun bankaskatts eru sértækir skattar á banka á Íslandi mun hærri en annars staðar á Norðurlöndunum og í flestum öðrum þróuðum ríkjum sem gjarnan er litið til í samanburði,“ skrifar Bjarni. Umræddir sértæku skattar á Íslandi sem hann vísar í eru:

  • Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki (bankaskatturinn)
  • Almennur fjársýsluskattur af launum
  • Sérstakur fjársýsluskattur af hagnaði
  • Eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins
  • Gjald til umboðsmanns skuldara

„Þessi skattlagning er einnig ein skýringin á því að vaxtamunur banka hér á landi er almennt meiri en í samanburðarlöndum.“

Leiði að öðru jöfnu til lakari vaxtakjara

Bjarni segir að sértæk skattlagning á fjármálafyrirtæki á borð við bankaskatt sé til þess fallin að hækka fjármögnunarkjör fjármálafyrirtækja. „Af þeim sökum hefur slík skattlagning að öðru jöfnu í för með sér aukinn vaxtamun og lakari vaxtakjör heimila og fyrirtækja“

Hann vísar í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 þar sem lækkun sértækra skatta var sögð skýrasta tækifæri ríkisins til að draga úr vaxtamun. Jafnframt var lækkun bankaskattsins úr 0,376% í 0,145% sögð skila álíka lækkun í rekstrarkostnaði bankanna og 15% fækkun starfsfólks.

Bankaskatturinn var fyrst lagður á árið 2010. Skatthlutfallið var upphaflega 0,041% en var ríflega nífaldaður upp í 0,376% árið 2013 til að standa straum af kostnaði við Leiðréttinguna. Hlutfallið stóð óbreytt í 0,376% fram til ársins 2021 þegar það var lækkað í 0,145%.

Vaxtamunurinn lækkað mikið

Bjarkey spurði einnig hvort Bjarna væri kunnugt um hvort lækkun á bankaskattinum hefði skilað sér í bættum kjörum til neytenda. Bjarni bendir á gögn frá Seðlabankanum, sem birt voru í ritinu Fjármálastöðugleika, sem sýna að vaxtamunur viðskiptabankanna hefur lækkað töluvert frá árinu 2012.

Líkt og sjá má meðfylgjandi mynd var vaxtamunurinn á síðasta áratug minnstur árið 2021, eftir að bankaskatturinn var lækkaður og stýrivextir voru í sögulegu lágmarki. Vaxtamunur hækkaði að nýju hjá viðskiptabönkunum í fyrra „líkt og algengt er þegar seðlabankar hækka meginvexti“.

Gefur lítið fyrir umræðu um óeðlilegan hagnað

Bjarni segir að ástæða sé til að benda á að þótt hagnaður bankanna geti virst hár í krónum talið þá sé mikilvægt að litið sé til arðsemi þeirra miklu fjármuna sem bundnir eru í rekstrinum.

„Þannig var rekstur beggja banka sem verið hafa í meirihlutaeigu ríkisins í mörg ár nokkuð undir settum markmiðum um arðsemi eigin fjár og þegar betur hefur árað í rekstrinum í seinni tíð hefur arðsemin aðeins farið lítillega umfram markmið [‏‏‏…] Á hinn bóginn þarf einnig að hafa í huga að ef arðsemi bankanna eykst þá endurspeglast það í auknum skattgreiðslum þeirra til ríkisins.“