Lilja Björk Einars­dóttir, banka­stjóri Lands­bankans, greinir frá því í árs­hluta­upp­gjöri kostnaðar­aukning Lands­bankans vegna hærri bindi­skyldu Seðla­banka Ís­lands verði um einn milljarður á ári.

„Nýjar kröfur Seðla­banka Ís­lands um bindi­skyldu verða til þess að Lands­bankinn mun eiga um 40 milljarða króna á vaxta­lausum reikningi hjá Seðla­bankanum, sem er aukning um 20% frá fyrri kröfu,” segir Lilja í upp­gjöri bankans.

Seðla­banki Ís­lands á­kvað nokkuð ó­vænt í byrjun apríl að hækka bindi­skyldu bankanna úr 2% í 3%. Kostnaður bankans vegna bindi­skyldunnar var 1,7 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins sam­kvæmt upp­gjöri.

Sam­kvæmt sér­fræðingum á fjár­mála­sviðum bankanna, sem Við­skipta­blaðið ræddi við í byrjun apríl­mánaðar, var á­ætlað að hækkunin myndi kosta bankanna um þrjá milljarða á ári miðað við nú­verandi vaxta­stig.

Heildar­kostnaður bankanna vegna vaxta­lausrar bindi­skyldu nemur um átta milljörðum á ári.

Þegar Seðla­bankinn til­kynnti um hækkunina vakti at­hygli að hún var ekki studd með neinni sér­stakri vísun í mark­mið peninga­mála­stefnu bankans. Hækkunin var fyrst og fremst á þeim grund­velli að draga úr kostnaði Seðla­bankans við að halda úti gjald­eyris­forða.

Sama dag og til­kynnt var um hækkunina út­skýrði Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri á árs­fundi bankans að eigið fé Seðla­bankans væri nú um 100 milljarðar en stjórn bankans hefur sett sér það mark­mið að það verði um 150 milljarðar.

„Þótt seðla­bankar séu ekki hagnaðar­drifnir og geti tækni­lega séð ekki orðið gjald­þrota í heima­gjald­miðli sínum þá hefur fjár­hags­staða þeirra á­hrif á trú­verðug­leika þeirra. Stundum hefur verið litið á eigið fé þeirra sem eins konar fót undir verð­mæti seðla­út­gáfu þeirra. En í öllu falli er ljóst að tap­rekstur seðla­banka felur í sér raun­veru­lega til­færslu á verð­mætum út í hag­kerfið. Það er því af þessum sökum sem það er al­menn al­þjóð­leg á­hersla að seðla­bankar haldi vel utan um eigið fé sitt, meðal annars til þess að tryggja trú­verðug­leika,” sagði Ás­geir á árs­fundinum.