Arion banki hagnaðist um 4,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 samanborið við 6,3 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 9,1% á fyrstu þremur mánuðum ársins en til samanburðar var arðsemi bankans 13,7% á sama tímabili í fyrra.

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs er undir markmiðum okkar. Lægri afkoma nú skýrist fyrst og fremst af lægri þóknanatekjum og háu skatthlutfalli þar sem tap vegna hlutabréfa sem haldið er gegn framvirkum samningum leiðir til 38% skatthlutfalls á fjórðungnum,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka í nýbirtu uppgjöri.

„Við sjáum að nokkuð hefur hægst á umsvifum í efnahagslífinu í ljósi hárra stýrivaxta og er það eitt af því sem hefur áhrif til lækkunar á þóknanatekjum tímabilsins.“

Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 24%

Rekstrartekjur Arion á fyrsta fjórðungi námu 14,5 milljörðum króna og drógust saman um 6,7% frá sama tímabili í fyrra. Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), drógust saman um 2%.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 2,3% og námu 11,2 milljörðum. Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 24% milli ára og námu 3,4 milljörðum króna.

Eignir bankans voru bókfærðar á 1.544 milljarða króna í lok mars og eigið fé var um 191 milljarður.

„Eiginfjár- og lausafjárstaða er áfram mjög sterk sem og fjármögnun bankans. Við vinnum nú að því að ná markmiðum okkar varðandi hlutfall eiginfjárþáttar 1. Í lok tímabilsins var hlutfallið 18,8% sem er 3,5 prósentustigum yfir kröfum eftirlitsaðila en markmið okkar er að vera 1,5-2,5 prósentustigum yfir þeirra kröfum. Í gangi er endurkaupaáætlun sem er liður í því að færa hlutfallið nær markmiði okkar,“ segir Benedikt.