Íslandsbanki hagnaðist um 5,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 samanborið við 6,2 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Bankinn birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs eftir lokun Kauphallarinnar.

Arðsemi eiginfjár var 9,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins en til samanburðar var arðsemi bankans 11,4% á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur Arion á fyrsta fjórðungi námu 16,5 milljörðum króna og drógust saman um 1,4% frá sama tímabili í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur námu 12,1 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi og drógust saman um 2,4% frá sama tímabili í fyrra. Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 5,0% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023 og námu 3,3 milljörðum. Aðrar rekstrartekjur námu 1,1 milljarði króna en voru 43 milljónir á fyrsta fjórðungi 2023.

Kostnaðarhlutfall bankans var 44,9% á fjórðungnum, samanborið við 42,1% á sama tímabili í fyrra. Í afkomutilkynningu bankans segir að kostnaðarhlutfallið sé í samræmi við afkomuspá bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og nær fjárhagslegu markmiði bankans um að kostnaðarhlutfall sé lægra en 45%.

Jón Guðni: Ekki að merkja mikla aukningu í vanskilum fyrirtækja

„Nýju ári fylgja jafnan bæði tækifæri og áskoranir og má segja að fyrsti ársfjórðungur hafi borið þess merki,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.

„Hátt vaxtaumhverfi og þrálát verðbólga hafa sett sitt mark á umræðuna og vísbendingar eru um samdrátt í einkaneyslu. Þá heldur sókn viðskiptavina í verðtryggð húsnæðislán áfram. Núverandi umhverfi er krefjandi fyrir fyrirtæki landsins en þrátt fyrir það er ekki að merkja mikla aukningu í vanskilum fyrirtækja á undanförnum mánuðum og eignagæði eru enn góð.“

Í tilkynningunni minnist Jón Guðni á að lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði lánshæfismat bankans í BBB+ úr BBB í byrjun apríl með vísan til dvínandi efnahagslegs ójafnvægis hér á landi.

Þá hafi bankinn ráðist í útgáfu á 300 milljón evra almennu skuldabréfi sem naut fjórfaldrar umframeftirspurnar og var seld til fjárfesta víðsvegar í Evrópu.

„Sú útgáfa fylgdi í kjölfar útgáfu bankans á grænum almennum skuldabréfum í norskum og sænskum krónum í janúar þar sem tilboð jafngiltu rúmlega þrefaldri umframeftirspurn. Framangreindu til viðbótar höfum við séð kjör á erlendum útgáfum bankans batna mjög á síðustu mánuðum.“