Hagnaður Stjörnugríss nam 325 milljónum króna á síðasta ári sem er 68% hækkun frá árinu 2020. Hagnaðurinn er hins vegar álíka mikill og árið 2019 þegar hann nam 330 milljónum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Heildarvelta félagsins nam 4,3 milljörðum króna á síðasta ári og hefur hækkað um 9% frá árinu áður. Eignir félagsins voru 433 milljónir í árslok, eigið fé um 1,9 milljarðar og skuldir 521 milljónir. Þannig var eiginfjárhlutfallið hjá Stjörnugrís 78,5% í lok árs 2021.

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2022 verði greiddur arður að fjárhæð 100 milljónir króna vegna rekstrarársins 2021. Feðginin Geir Gunnar Geirsson og Hjördís Gissurardóttir eiga samtals um 80% hlut í Stjörnugrís, Geir á 50% hlut og Hjördís 30,44% hlut. Þá eiga þær Hallfríður Kristín og Friðrika Hjördís Geirsdætur sitthvorn 9,78% hlutinn.

Stjörnuegg veltir 1,2 milljörðum

Þá hagnaðist Stjörnuegg, systurfélag Stjörnugríss, um 162 milljónir króna á síðasta ári. Velta félagsins nam 1,2 milljörðum og námu eignir þess 1,6 milljörðum. Eigið fé Stjörnueggs var 1,4 milljarðar í lok árs og eiginfjárhlutfallið 88%.

Í lok árs 2021 var Stjörnuegg í 79% eigu Hjördísar Gissurardóttur. Þá áttu þær Hallfríður og Friðrika sitthvorn 11% hlutinn.

Stjörnugrís er með bú að Vallá á Kjalarnesi, en rekur einnig svínabú í Saltvík á Kjalarnesi, Melum í Melasveit, Sléttabóli á Skeiðum og að Bjarnastöðum í Grímsnesi. Þá er Stjörnuegg með ungauppeldi í Sætúni og í Saltvík, og varphús í Brautarholti og að Vallá.