Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Þetta er fimmta vaxtaákvörðunin í röð þar sem nefndin ákvað að halda vöxtum óbreyttum og hafa stýrivextir því staðið í 9,25% frá því í ágúst síðastliðnum.

„Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Áhrif kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum ekki komin fram

Nefndin bendir á að verðbólguþróun hafi verið ágæt upp á síðkastið. Verðbólga hjaðnaði úr 6,8% í 6,0% milli mars og apríl og verðbólga án húsnæðisliðar hafi minnkað hraðar. Undirliggjandi verðbólga sé komin niður í 5%. Þá hafi verðbólguvæntingar lækkað á suma mælikvarða þó þær séu enn yfir markmiði.

Hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar enda sé peningalegt taumhald þétt. Horfur séu á að það dragi úr hagvexti í ár.

„Spenna í þjóðarbúskapnum er þó meiri en áður var talið og verðbólga minnkar því hægar samkvæmt nýrri spá Seðlabankans,“ segir í yfirlýsingunni.

„Áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn eru ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.“