Hlutabréfaverð Nova hefur fallið um 3% í fyrstu viðskiptum dagsins. Gengi hlutabréfa félagsins stendur í 3,88 krónum þegar fréttin er skrifuð og er nú um 3,2% lægra en í upphafi árs.

Í ársfjórðungsuppgjöri sem fjarskiptafélagið birti eftir lokun Kauphallarinnar í gær kemur fram að hagnaður félagsins á fyrsta fjórðungi nam 133 milljónum króna samanborið við 159 milljónir á sama tíma í fyrra. Þá lækkaði EBITDA-afkoma á fyrsta fjórðungi úr 949 milljónum í 905 milljónir milli ára.

Tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi stóðu nánast í stað milli ára og námu 3,2 milljörðum króna. Þjónustutekjur jukust um 4,5% milli ára og námu 2,5 milljörðum á fjórðungnum en tekjur af vörusölu drógust saman um 10,5% og námu 468 milljónum.

„Mikil krafa er í samfélaginu um að ná stöðugleika, hlúa að innviðum og halda áfram uppbygginu þeirra, á sama tíma og kostnaðarhækkanir hafa verið áskorun og þrýst á þörf fyrir verðhækkanir,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, í afkomutilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær.

„Þjónustutekjur hafa vaxið en vörusala heldur áfram að dragast saman þar sem viðskiptavinir eiga símtækin sín lengur en áður, en það hefur þó lítil áhrif á rekstrarniðurstöðu. Framlegð af vörusölu er almennt lág ef miðað er við þjónustutekjur. Aftur á móti hafa þjónustutekjur hækkað milli ára sem vegur upp lækkun á tekjum af vörusölu.“